„Meirihlutinn í borginni er á góðri leið með að eyðileggja umferðina í borginni og hefur engu breytt um þessa stefnu þó að flokkur breytinganna, eins og það var orðað, hafi tekið við stöðu VG innan meirihlutans. Sá flokkur hefur af einhverjum óskiljanlegum ástæðum kokgleypt allt sem að honum er rétt og virðist ráðinn í að koma fjölda borgarfulltrúa sinna aftur niður í fyrri tölu í næstu kosningum,“ þannig eru lok leiðara dagsins í Mogganum.
Hér eru orðin hvergi spöruð. “…að eyðileggja umferðina í borginni…“ Reyndar er hægt að taka undir að maður hinna miklu boðuðu breytinga, Einar Þorsteinsson í Framsókn, er allt, allt annar en hann var í kosningabaráttunni. Hann ætlar ekki að breyta neinu.
Með einstakri samningatækni hefur Degi borgarstjóra tekist að halda Sjálfstæðisflokki frá völdum og áhrifum í mörg, mörg ár. Það svíður. Og getur komið lífsreyndustu mönnum úr jafnvægi.