Er ekki orðið tímabært að kippa þessum ýkjubarón og kvótaaðli niður á jörðina?
Sigurjón Þórðarson skrifar:
Stundum getur afburða léleg fréttamennska verið mjög upplýsandi. Það á a.m.k. vel við um „fréttamennsku“ Kristjáns Kristjánssonar fyrrum fjölmiðlafulltrúa Geirs Haarde, Hann tók símaviðtal við Binna í Vinnslustöðinni á Bylgjunni í morgun. Kristján strauk Binna með hárunum og spurði engrar gagnrýnnar spurningar um fjárkröfu hans á hendur íslensku þjóðarinnar.
Notalegt og uppbyggjandi hjal Kristjáns, kom Binna á flug og var samtalið afhjúpandi um veruleikafirringu manns sem sleginn er mikilli forréttindablindu. Að sögn Binna fann hann og nokkrir útgerðarmenn í Eyjum makrílinn, sögðu sjávarútvegsráðherra frá fiskinum, kenndu sérfræðingum Hafró allt um makrílinn og á fiskileitartækin í rannsóknarskipunum. Ekki nóg með það heldur fluttu þeir inn tækni frá Rússlandi og Færeyjum sem gat gert þeim kleift að vinna fiskinn og veiða hann. Þessu til viðbótar þá fundu þeir markaði og kenndu heiminum að borða íslenskan makríl!
Það eina sem Binni karlinn átti eftir að telja upp í þessari ævintýralegu Munchausen frásögn, var að hann hrygndi makrílnum sjálfur einn og óstuddur.
Mótsagnirnar í viðtalinu og ruglið um forsendur kröfugerðarinnar ætti að geta gert hvern mann sem þekkir eitthvað til staðreynda, sjóveikan. Hvernig getur maður sem segir í öðru orðinu verið fylgjandi fjölbreytileika í sjávarútvegi og réttindum þeirra minni í greininni, krafist þess að fá forgang umfram aðra til þess að nýta sameiginlega auðlind landsmanna?
Á viðtalinu kemur skýrt í gegn að hann metur sjálfan með svipuðum hætti fyrir íslenska þjóð og Wiinston Churchill mat orustuflugmenn Breta þ.e. aldrei hefðu jafn margir átt jafn fáum jafn mikið að þakka.
Er ekki orðið tímabært að kippa þessum ýkjubarón og kvótaaðli niður á jörðina?