Víða er að finna fólk sem er erfitt í samskiptum. Af ýmsum sökum. Þannig fólk starfar í stjórnmálum, sem og víða annarsstaðar. Eðlilega.
Þrjár týpur eru mikið áberandi. Þeir minnst skaðlegu, af þeim, er fólkið sem ýkir út frá staðreyndum. Hikar ekki við að ýkja, auka við staðreyndirnar. Fyrir annað fólk, sem hugsanlega á samtölum við ýkjara, er slíkt oft erfitt.
Nokkru verri eru þau sem láta sér ekki nægja að ýkja, heldur hreinlega ljúga. Þau eru verri en ýkjararnir. Samt byggja þau lýgina á staðreyndum, rétt einsog ýkjararnir. Mega eiga það. Því er hugsanlegt að eiga í orðaskiptum við lygarana, rétt einsog ýkjarann.
Verstir allra eru bullararnir. Þeir eru hreint ómögulegir. Verst er þó þegar þannig fólk kemst til mikilla valda og orð þess eiga að skipta miklu máli. Hafa þýðingu. Við þannig fólk er varla hægt að tala, skiptast á skoðunum. Orð þessa fólks eru oft fjarri veruleikanum og jafnvel bara til í þeirra eigin hugarheimi.
Ekki er minnsti vafi á að getum séð fyrir okkur ýkjara, lygara og bullara í áberandi og ráðandi stjórnmálafólki. Nú hugsar hver fyrir sig. (Myndin með greininni er valinn með tilliti til innihaldsins).
Og hefst þá leikurinn.
Sigurjón M. Egilsson.