Yfirmenn Guðlaugs Þórs í ráðuneytinu dingluðu honum inn í Mannréttindaráð SÞ
„Það er óburðugt að fylgjast með utanríkisráðherra úr Sjálfstæðisflokki síðustu misserin. Yfirmenn hans í ráðuneytinu dingluðu honum inn í Mannréttindaráð SÞ. Heitið er öfugmæli og ráðið verður SÞ reglubundið til minnkunar.“
Þarna skrifar fyrrverandi utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins. Sem þekkir vel til innanhúss við Rauðarárstíginn. Sat þar í eitt ár. Tilefnið er að ráðherranum fyrrverandi, og núverandi ritstjóra, þykir nóg um. Einkum og sér í lagi að íslensk stjórnvöld tali á skjön við Donald Trump.
„Borið er blak af WHO, sem er með allt niðrum sig í alvarlegustu málum samtímans. Forstjórinn kemur úr Byltingarflokki Eþíópíu, og neitaði sem heilbrigðisráðherra þar að viðurkenna útbreiðslu kóleru! Og sem enn verra var; hann gerði svo mannkyninu óbætanlegt tjón með því að hann þumbaðist við til 11. mars !!! að staðfesta að kórónuveiran smitaðist á milli manna,“ skrifar ritstjórinn og er fjarri hættur. „Fyrsta verk þessa forstjóra WHO var að skipa ömurlegustu pólitísku fígúru samtímans, Mugabe, slátrarann frá Simbabve, sem „sendiherra góðviljans“ af hálfu WHO! Mugabe var þá á lokametrum sem einræðisherra.
Á sama tíma og yfirmenn ESB eru staðnir að því að láta Kína ritskoða yfirlýsingar sínar um kórónuveiruna ákváðu þeir, til að dreifa athyglinni, með skætingi í garð Ungverjalands eins og reglulega gegn Póllandi, sem þeir minna á að sé ekki lengur fullvalda ríki vegna aðildar sinnar að ESB.
Fyrstu þjóðirnar sem hlaupa til með umvöndunarprikið þegar ESB ýtir á takka eru skandinavísku barnapíurnar. Á meðan fullorðið fólk stjórnaði íslenska utanríkisráðuneytinu var þess vandlega gætt að Ísland væri ekki ein af barnapíunum,“ segir í Staksteinum. Hafi Guðlaugur Þór náð að ávinna sér stuðning við Hádegismóa er víst að hann er fokinn út í veður og vind.