Fréttir

Yfir 100 prósent skerðingar hjá öryrkjum og eldra fólki

By Miðjan

February 06, 2020

„Í svari sem ég fékk frá félags- og barnamálaráðherra nýlega kemur skýrt fram að það eru tíu skerðingarflokkar hjá ellilífeyrisþegum og öryrkjum. Í þessum skerðingarflokkum eru skerðingar frá 11,9% upp í 65%. En þetta segir ekki alla söguna vegna þess að innan þessara flokka eru keðjuverkandi skerðingar. Og þegar komið er út fyrir þessa flokka taka við aðrir skerðingarflokkar í félagsmálakerfinu eins og sérstakur húsnæðisstuðningur og húsaleigubætur o.fl. Samanlagt geta þessar skerðingar farið vel yfir 100% í dag,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson Flokki fólksins á þingi í dag.

„Ríkisstjórnin hælir sér af því að hún hafi gert svo mikið fyrir öryrkja en er inni í þeirri tölu, síðan þessi ríkisstjórn kom til valda, 8 milljarða kr. aukning á skerðingum í þessum flokki? Frá 2015, ef við tökum ríkisstjórnir undanfarinna ára, hafa þær aukið skerðingarnar um 13 milljarða kr., og bara núna á síðustu þremur árum um 8,5 milljarða. Á sama tíma hæla þeir sér af því að þeir hafi gert svo rosalega mikið fyrir þennan hóp. En taka þeir allar skerðingar inn í þegar þeir eru að segja hversu háar upphæðir þessi hópur hefur fengið? Þetta skilar sér alls ekki í vasa þeirra sem mest þurfa á þessu að halda, heldur er þetta bara leikur að tölum,“ sagði Guðmundur Ingi.