„Þannig bætum við þjónustu og lífsgæði í Reykjavík.“
„Umfangsmikil opinber umsvif, opinber afskipti og útdeiling gjaldfrjálsra gæða er vinstri pólitík. Lítil opinber umsvif, frelsi einstaklings til verðmætasköpunar án óhóflegra opinberra afskipta og sanngjörn gjaldtaka af þjónustuþegum er hægri pólitík. Ég aðhyllist þá síðarnefndu,“ skrifar Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um vilja sinn til að koma bílastæðum Reykjavíkur í einkarekstur.
Hildur opinberar huga sinn í Fréttablaðinu í dag. Þar segir hún einnig þetta:
„Bílastæði verða sífellt veigameira viðfangsefni þeirra sem fást við borgarskipulag. Í samanburði við erlendar borgir finnst fordæmalaus fjöldi bílastæða í miðborg Reykjavíkur. Hlutfallslega eru fleiri stæði á hvert starf, auk þess sem gjaldið er talsvert lægra en erlendis. Miðborgarland er eitt það verðmætasta hérlendis. Þessum verðmætu gæðum borgarinnar er víða ráðstafað ótímabundið og gjaldfrjálst undir bifreiðar. Það er óæskileg meðferð verðmæta.“
Og þessu á að fylgja eftir:
„Á næsta borgarstjórnarfundi mun Sjálfstæðisflokkur leggja til rekstrarútboð á bílastæðahúsum borgarinnar. Við viljum draga úr opinberum umsvifum, treysta skyldubundna þjónustu en færa önnur verkefni í hendur einkaaðila. Þannig bætum við þjónustu og lífsgæði í Reykjavík.“