„Til að rétta aftur úr kútnum þarf alvöruumræðu um það hvert hlutverk hins opinbera á að vera fram veginn og hvort umsvif þess í dag séu forsvaranleg meðan atvinnulífið er í endurlífgun. Hvort ekki sé eðlilegra að hið opinbera sinni grunnþjónustu og greiði leið fyrirtækja, í stað þess að leggja stein í götu þeirra,“ skrifar Halla Sigrún Mathiesen, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna í Moggann í dag.
„Það er ekki síst mikilvægt í ljósi þeirra fjárfestinga sem nauðsynlegar eru til að skapa sjálfbæra framtíð og þeirra starfa sem verða til þegar nýsköpun er áhættunnar virði. Með uppfærðri forgangsröðun getum við gert miklu betur í heilbrigðis- og menntamálum og það í auknu samstarfi við einkaaðila, en jafn mikilvægir málaflokkar eiga ekki bara að hvíla á herðum hins opinbera. Við þurfum allar hendur á dekk fyrir verkefnið fram undan.“