Tekist var í borgarstjórn þegar samþykkt var að borgarfulltrúar muni sæta því að skráðir verði fjárhagslegir hagsmunir borgarfulltrúa. Augnabliki fyrr samþykkti borgarstjórn nýjar siðareglur.
Þegar kom að afgreiðslu skráningar á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúar bókuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins:
„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mættu á fund borgarstjórnar tilbúnir að samþykkja reglur um skráningu fjárhagslegra hagsmuna sem forsætisnefnd hafði samþykkt með fyrirvara um samþykki Persónuverndar. Nú ber svo við að meirihlutinn kemur fram með breytingartillögu og vill vísa málinu í borgarráð. Það liðu ekki margar mínútur frá því siðareglurnar voru samþykktar og þangað til þær voru brotnar. Samkvæmt þriðja lið segir: „Við kynnum okkur málin og mætum undirbúin til starfa“. Óhætt er að segja að þessi regla hafi verið rækilega brotin í málinu. Í stað þess að ræða um reglurnar og ástæður þess að meirihlutanum þraut örendi í málinu á síðustu stundu var ræðustóll borgarstjórnar notaður í dylgjur sem lítill sómi var af. Sjálfstæðismenn hafa lagt áherslu á aukið gagnsæi í hagsmunaskráningu og lögðu til aukna skráningu í borgarráði 16. ágúst 2018. Nú nær ári síðar er ekki enn búið að bæta skráninguna þannig að hún nái líka til embættismanna en ekki eingöngu til kjörinna fulltrúa.“
Fulltrúar meirihlutans og Sanna Magdalena Mörtudóttir Sósíalistaflokki sögðu já, Vigdís Hauksdóttir sagði nei en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sátu hjá.