- Advertisement -

XD: Eigum við skilið að vera frjáls?

Eða hvernig ber annars að skýra atburði síðustu missera, þar sem börn voru sprautuð með lyfjum sem ljóst var að þau þurftu ekki á að halda?

Arnar Þór Jónsson.

„Hvert sem litið er virðist sem gjá hafi myndast milli almennings og stjórnmálamanna. Þessi gjá breikkar og dýpkar með hverjum deginum. Við sjáum óeirðir í Frakklandi sem snúast ekki aðeins um lífeyrismál, heldur um lýðræðisskort. Í Skotlandi, Nýja-Sjálandi og víðar eru kjósendur að hafna stjórnmálamönnum sem sýnt hafa lýðræðinu lítilsvirðingu með því að fara offari í valdbeitingu og frelsisskerðingum.“ skrifar Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Bjarna Benediktssonar.

„Ef einhverjum skyldi enn ekki vera orðið það ljóst, þá er ESB (og EES) stjórnað af embættismönnum og tæknimönnum, sem skortir þekkingu og áhuga á aðstæðum fólks á Íslandi. Þetta er stjórnarfar sem er ónæmt fyrir umkvörtunum kjósenda og talar ekki okkar tungumál, en skilur aðeins hið alþjóðlega tungumál markaðarins. Þetta tungumál heitir peningar,“ skrifar Arnar Þór.

„Er allt til sölu nú á tímum? Við erum að selja undan okkur landið, jaðarsetja okkar eigið tungumál og horfum auk þess aðgerðalaus á að lýðræðið okkar og löggjafarþing sé gengisfellt með frumvarpi sem miðar að forgangi erlendra reglna. Er staðan sú að stjórnmálamenn okkar samsama sig fremur með erlendum kollegum en íslenskum kjósendum? Telja þau sig nú bera þyngri skyldur gagnvart erlendum stofnunum en íslenska lýðveldinu?“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Höfum við ekkert lært?

Er ekkert heilagt lengur? Eru menn jafnvel tilbúnir að bregðast frumskyldum sínum til að falla í hópinn? Eða hvernig ber annars að skýra atburði síðustu missera, þar sem börn voru sprautuð með lyfjum sem ljóst var að þau þurftu ekki á að halda? Þar sem sakleysi barnæskunnar er mengað með kynlífsvæðingu námsefnis? Þar sem lögreglan umbreyttist úr þjóni laganna yfir í ógn við almenna borgara sem lá á hleri og gægðist inn um glugga? Þar sem þingmenn og ráðherrar afhentu sérfræðingum alla stefnumótun? Er þetta merki um krónískan undirlægjuhátt eða snýst þetta bara um að fá launaseðilinn, fá að vera með í partýinu? Gera sérfræðingarnir okkar (læknar, lyfjafræðingar, kennarar, embættismenn) hvað sem er fyrir fé … og frama?

Hvað með okkur sjálf, afsölum við okkur málfrelsinu til að halda öðrum góðum? Hvað gerir fólk sem selur sjálfsvirðingu sína með þeim hætti? Kæfum við rödd samviskunnar með því að fordæma og krossfesta þá sem eru rödd samviskunnar? Verður rödd sannleikans þögguð niður með þeim hætti? Höfum við ekkert lært? Fáum við ekki (enn) þá leiðtoga sem við eigum skilið að fá? Er þá ekki bara rökrétt að leiðtogar okkar aðhyllist afstæðishyggju og forðist ábyrgð? Getum við þá kvartað ef í ljós kemur að leiðtogar okkar kjósa að lúta ekki æðstu lögum heldur aðeins vilja þeirra sem beita mestum þrýstingi þá stundina? Erum við sem sagt enn á þeim stað að vilja fórna því göfugasta, háleitasta og dýrmætasta til að komast hjá því að skoða eigin tilveru, eigin athafnir, eigin misbresti í skæru ljósi?“  

 Arnar Þór endar skrifin svona:

„Á þjóð sem selur frá sér sjálfsákvörðunarréttinn skilið að vera frjáls? Getur þjóð sem hafnar staðreyndum og samþykkir að sannleikurinn sé afstæður ratað réttan veg?“   


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: