Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt að árétta að engin þörf sé á eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum til lengri tíma litið. „Ríkið selji eignarhlut sinn í bönkunum jafnframt sem ráðist verði í frekari einkavæðingu þar sem ríkið er í samkeppnisrekstri. Söluferlin skulu vera opin og leikreglur skýrar.“
Svo segir í stjórnmálaályktun fundarins. Þar segir einnig: „ÁTVR verði lagt niður í núverandi mynd.“
Í ályktun fjárlaganefndar landsfundar segir:
„Sjálfstæðisflokkurinn telur að selja eigi ákveðnar ríkiseignir s.s. eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, Landsbanka, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Íslandspósti og annan samkeppnisrekstur. Öll söluferli verða að vera opin og leikreglur skýrar. Þá er rétt að leggja niður ÁTVR og RÚV í núverandi mynd. Ráðast þarf í úttekt á hagkvæmni húsnæðis ríkisstofnana og að ríkið selji í framhaldinu allar þær fasteignir sem ekki eru nauðsynlegar.“