Rétt er að hafa áfram gaman af stjórnmálagreiningu Guðna Ágústssonar sem birtust í Mogga gærdagsins. Í gær birtum við skrif Guðna um Vg og Framsókn:
„Þá er það Sjálfstæðisflokkurinn. Þar trónir Bjarni Benediktsson sem farsæll fjármálaráðherra í afgerandi stöðu í flokknum. Honum ógnar enginn. Bjarni er umdeildur og eru það ættarfjötrar hinna duglegu Engeyinga sem menn finna honum helst til foráttu. Og hitt að í hann vantar meiri „Bjarna Ben,“ þá miða menn við skörunginn. Bjarni beitir fram ungum konum, þeim Þórdísi Kolbrúnu og Áslaugu Örnu en þær gera það gott og eru vaxandi. Guðlaugur Þór siglir beitivind, fyrsti utanríkisráðherra síðustu 40 ára sem situr heima og er alls ekkert verri en fyrirrennararnir sem eyddu 200 dögum árlega erlendis.“
Guðni minnist ekki einu orði á fimmta ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Kristján Þór Júlíusson, sem hefur að vísu tilkynnt eigin leiðarlok.