Ferðamál „Icelandair flutti um 355 þúsund farþega í síðasta mánuði eða 64 prósent allra farþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í júlí árið 2011 var hlutdeild félagsins 62 prósent. Vægi Icelandair er því nánast óbreytt þrátt fyrir að nú fari nærri þriðjungi fleiri um flugvöllinn en fyrir þremur árum síðan. Þegar Iceland Express setti sitt farþegamet í júlí 2011 voru 24 prósent farþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á vegum fyrirtækisins,“ segir meðal annars í fréttaskýringu á Túrista, turisti.is.
„Í síðasta mánuði voru hins vegar rúmlega 13 prósent farþeganna í Keflavík á leið í eða úr vélum WOW air. Hlutdeild WOW air í metmánuðinum er því nærri helmingi lægri en hlutdeild Iceland Express var þegar félagið setti sitt met fyrir þremur árum. Iceland Express og WOW air hafa verið næststærsti aðilinn í millilandaflugi á eftir Icelandair og af þessum tölum að dæma þá hefur staða þess aðila versnað mjög með tilkomu fleiri erlendra flugfélaga. En eins og áður segir þá hefur ferðunum um Keflavíkurflugvöll í júlímánuði fjölgað um þriðjung á þessum þremur árum og markaðurinn er því mun stærri.“
Sjá nánar hér.