Willum Þór Þórsson ber alls ekki mesta ábyrgð á hversu slakt gengi KR-liðsins hefur verið í sumar. Reyndar fjarri því. Stjórn knattspyrnudeildar ber mestu ábyrgðina. Það yrði stórkostlega bilað ef þeir menn taka síðan ákvörðun um að reka Willum. Það má ekki gerast. Willum nýtur trausts. Hinir ekki.
Síendurteknar reddingar með því að reka þjálfarann eru ömurlegar. Willum hlýddi kallinu í fyrra, kom og náði flottum árangri. Sami Willum er enn þjálfari. Sami Willum og stýrði KR til tveggja Íslandsmeistaratitla, sem og litla bróður á Hlíðarenda, til eins titils.
Nú þarf ró og yfirvegun. Nú þurfa KR-ingar að ráða ráðum sínum. Áður en nefndur verður sá möguleiki að reka Willum ber að gera margt áður. Stjórnarmenn verða að byrja á sjálfum sér. Þeir eru nærtækastir. Síðan eru í KR leikmenn sem ekki hafa staðið undir væntingum. Hvað með þá?
Nei, hinn almenni KR-ingur er þreyttur á skítareddingum. Willum Þór á sjálfur að ráða hvenær hann lætur af störfum, sem vonandi verður seint og síðar meir.
Að lokum, alltaf höfum við borið virðingu fyrir Fram. Með öllu er óskiljanleg vegferðin sem stjórnarmenn þar á bæ hafa kosið að fylgja. Ásmundur Arnarson er frábær þjálfari, það sýna hans fyrri verk. Almennt var talið að hann tæki niður fyrir sig við að taka við liði Fram. En hann, gegnheill maðurinn, sagðist vilja vera með í uppbyggingu. Svo fór sem fór.
Kann að vera að helsta vandamálið í fótboltanum séu mishæfir stjórnarmenn?
Sigurjón M. Egilsson.