„Þessi málaflokkur er gríðarlega undirfjármagnaður og við höfum áhyggjur af því að ráðherra nái ekki sínum málum fram að óbreyttu. Það eru ekki fjárheimildir til að ráðast í neitt átak til að bæta stöðuna en það er akkúrat það sem þarf. Það blasir við hverju mannsbarni sem vinnur í þessu heilbrigðiskerfi að það er fjársvelt. Við bindum auðvitað vonir við að ráðherra nái að knýja fram breytingar, við vitum að hann vill berjast fyrir þeim en höfum áhyggjur af því að hann mæti ekki nægum skilningi,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, í Mogganum í dag.
Glíma þeirra Willums og Bjarna um þolanlegt heilbrigðiskerfi er í gangi, samkvæmt þessu.
Í Mogganum segir einnig:
Á aðalfundi Læknafélags Íslands var samþykkt ákall til ríkisstjórnar Íslands vegna ríkjandi neyðarástands í heilbrigðiskerfinu. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ávarpaði gesti fundarins og svaraði fyrirspurnum lækna. „Ráðherra hefur sett sig vel inn í þennan málaflokk og sýnir stöðu okkar skilning,“ segir Steinunn.
Þetta er aumara en aumt. Enn og aftur er heilbrigðiskerfið að glíma við alltof litlar fjárheimildir. Bjarni virðist standa þver fyrir betra kerfi.