Fréttir

VR veitir flóttafólki aðstoð

By Ritstjórn

March 10, 2022

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar:

Ég er afar hreykinn af Stjórn VR sem samþykkti í gærkvöldi að bregðast við því neyðarástandi sem innrás Rússa hefur orsakað hjá úkraínsku þjóðinni og svara um leið ákalli stéttarfélaga í Úkraínu um hjálp.

VR mun leggja sín lóð á vogarskálarnar við móttöku úkraínsks flóttafólks til Íslands með fjárstuðningi og með því að útvega bráðabirgðahúsnæði. Um leið vill stjórn VR skora á íslensk stjórnvöld að gera gangskör að verulegum úrbótum í húsnæðismálum hér á landi en félagið mun hlaupa undir bagga með flóttafólkinu með því að bjóða afnot af orlofshúsum félagsins í Ölfusborgum sem eru fjögur talsins.

Auk þessa mun félagið styrkja hjálparstarf vegna flóttafólksins frá Úkraínu um 5.600.000 kr. eða sem nemur einni evru á hvern félagsmann.

Stjórn VR skorar jafnframt á önnur stéttarfélög hér á landi að leggja sitt af mörkum því neyðin er mikil og með sameiginlegu átaki er hægt að áorka miklu til góðs.