VR hefur stefnt íslenska ríkinu vegna breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar sem komu til framkvæmda um áramótin.Félagið telur að íslenska ríkinu hafi verið óheimilt að skerða rétt félagsmanna til atvinnuleysisbóta með því að stytta bótatímabilið um sex mánuði, eins og gert var með breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar.
Á vef Verslunarmannafélags Reykjavíkur má sjá að stefnan var lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 2. janúar sl. og að félagið óskaði eftir flýtimeðferð. Formaður VR, Ólafía B. Rafnsdóttir, segir félagið ekki hafa séð annan kost í stöðunni en höfða mál til að fá ákvörðun ríkisins um lagabreytingarnar hnekkt.„Skerðing á bótarétti atvinnuleysistrygginga, með nær engum fyrirvara, kippir fótunum undan fjölda félagsmanna VR. Okkar hlutverk er að verja réttindi félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra. Ábyrgð okkar er skýr, við sáum engan annan kost í stöðunni en höfða mál til að fá þessari ákvörðun hnekkt,“ Ólafía bendir á að árið 2006, þegar bótatímabilið var stytt úr fimm árum í þrjú, hafi löggjafinn séð til þess að atvinnulausum var gefinn aðlögunartími þannig að ekki kæmi til afturvirkrar skerðingar. Svo sé ekki raunin nú.
Um þúsund félagsmenn VR voru á atvinnuleysisskrá um áramótin og misstu 81 félagsmenn VR rétt til atvinnuleysisbóta þann 1. janúar sl. Alls misstu um 500 einstaklingar bótaréttinn.
Brot gegn stjórnarskrá
Réttur til aðstoðar vegna atvinnuleysis er meðal grundvallarréttinda í stjórnarskránni þar sem segir að með lögum skuli tryggja öllum sem þess þurfa rétt til aðstoðar. Íslenska ríkið hefur ekki frjálst mat um hvernig og hversu mikil aðstoð er veitt vegna atvinnuleysis og er óheimilt að ákveða að réttinum til atvinnuleysisbóta sé breytt á ósanngjarnan, íþyngjandi og afturvirkan hátt. VR telur að breytingarnar á lögunum um atvinnuleysistryggingar gangi gegn 76. gr. stjórnarskrár Íslands.
Í frétt VR segir að áunnin réttindi til greiðslna teljist eign sem nýtur verndar eignaréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Þeir, sem þegar hafa fengið atvinnuleysisbætur á grundvelli þeirrar forsendu að rétturinn sé til allt að þriggja ára, eiga rétt á því að þær forsendur haldist. Það er mat VR að réttindi þeirra sem fengu atvinnuleysisbætur við gildistöku laganna 1. janúar 2015 hafi verið skert með óstjórnskipulegum hætti enda var skilyrðum fyrir skerðingu ekki fullnægt.
Ástæður breytinganna séu að lækka eigi útgjöld ríkissjóðs. Þær ástæður réttlæta ekki að mati VR svo íþyngjandi og afturvirkar skerðingar sem hér um ræðir. Atvinnuleysis¬tryggingasjóður er fjármagnaður með atvinnutryggingagjaldi. Ekkert liggur fyrir um að tryggingagjald hafi hætt að duga fyrir rekstri sjóðsins og bendir raunar allt til hins gagnstæða. Stjórnvöld hafa ekki sýnt fram á nein tengsl milli skerðingarinnar og málefnalegra ástæðna þannig að réttlæta megi skerðingu þeirra hagsmuna sem sjóðnum er ætlað að tryggja.
Sjá frétt í heild sinni á síðu VR.