- Advertisement -

Vopnavæðing lögreglunnar eru ekki einkamál hennar eða dómsmálaráðherra

Það er með öllu óviðeigandi að einskiptisviðburður sem krefst öryggisgæslu á hernaðarlegum skala sé notaður sem afsökun fyrir því að taka veigamiklar ákvarðanir í málefnum lögreglu til langframa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.

„Vopnvæðing lögreglunnar og auknar valdheimildir hennar eru þannig ákvarðanir sem eiga heima á lýðræðislegum vettvangi og sem ber að taka með opin augu. Við eigum ekki að taka U-beygju í málefnum lögreglunnar hvað varðar valdheimildir og vopnaburð bara vegna þess að ráðamenn nenna ekki eða tíma ekki að styðja hana með öðrum leiðum. Vopnvæðing og valdheimildir lögreglunnar eru ekki einkamál hennar eða hæstvirts dómsmálaráðherra. Það er með öllu óviðeigandi að einskiptisviðburður sem krefst öryggisgæslu á hernaðarlegum skala sé notaður sem afsökun fyrir því að taka veigamiklar ákvarðanir í málefnum lögreglu til langframa án þess að eiga svo mikið sem samtal við ríkisstjórn eða þann aðila sem með réttu ætti að taka slíkar ákvarðanir, þjóðkjörið þing Íslendinga,“ sagði Píratinn Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.

„Fjölgun lögreglumanna, aukin þjálfun þeirra og bætt starfsskilyrði almennt eru mjög af hinu góða. Um það er fullur samhugur og þingmenn Pírata hafa margsinnis kallað eftir því. Það er veruleg þörf á því að styðja betur við lögregluna og hefur verið lengi. Á sama tíma hefur verið áhyggjuefni að fylgjast með því hvernig sumir ráðamenn hafa sýnt því mun meiri áhuga að auka vopnaburð og valdheimildir lögreglunnar og gripið til þess hverjar þær réttlætingar og afsakanir sem þeim detta í hug, sem hafa verið mistrúverðugar og stundum tóm della. Það segir sig sjálft að einfaldast og ódýrast er að leyfa lögreglunni bara að gera það sem henni sýnist og hafa til þess öll þau vopn og valdbeitingartæki sem henni dettur í hug að nota. Vandinn er sá að slíkt fyrirkomulag samræmist ekki lýðræðisfyrirkomulaginu. Það eru góðar ástæður fyrir því að lögregluvald er takmarkað í lýðræðisríkjum og að lögreglan megi ekki bara gera allt sem hún vill og fá til þess öll þau vopn sem hugurinn girnist. Þessar takmarkanir eru ekki settar til höfuðs öryggissjónarmiðum heldur þvert á móti til öryggis, til verndar borgurunum gegn ægivaldi ríkisins, til að draga úr möguleikunum á misbeitingu valds,“ sagði Arndís Anna.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: