Kjaraviðræður eru fram undan. Mogginn birtir oft varnaðarorð úr Borgartúni 35, B35, og í dag flytur blaðið enn tíðindi úr húsi lobbýista ríka fólksins.
„Við hjá Samtökum atvinnulífsins höfum undanfarið verið að ferðast um landið. Eitt af því sem við heyrum er að rekstrarstaða fyrirtækja er erfið um þessar mundir, launakostnaður hefur hækkað verulega síðustu ár, fyrirtæki hafa hagrætt til að mæta slíkum kostnaðarhækkunum en nú sé svo komið að þau þurfi að grípa til annarra aðgerða eins og uppsagna,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir.
„Ég held að atvinnuleysi muni aukast. Dregið hefur úr hagvexti og slaknað á þeirri spennu sem hefur verið á vinnumarkaði,“ segir Ingólfur Bender. Hann telur að þó að hagvöxtur hafi mælst talsverður á fyrri hluta árs muni nokkuð hratt draga úr honum á seinni hluta ársins og þegar kemur fram á næsta ár.
Þetta er orðrétt úr Mogganum.