Vont að treysta á ellilífeyri hins opinbera
Sú staðreynd að hið opinbera „sveikst um“ að leggja þessa fjárhæð í sérstakan sjóð er ekki á ábyrgð starfsmannanna.
Ragnar Önundarson skrifar:
Flestir hafa bara treyst því að greiðslur þeirra í lífeyrissjóð dugi fyrir þokkalegum lífeyri. En eru nú margir hverjir að verða fyrir vonbrigðum. Að meðaltali töpuðu sjóðirnir um 20% í hruninu, en sumir töpuðu engu, aðrir miklu meira. Skylduaðild var að lífeyrissjóðum og atvinnugreinin valdi sjóðinn, þess vegna er þetta ósanngjarnt.
Opinberir starfsmenn höfðu lægri (útborguð) laun, en meiri lífeyrisrétt. Mismunurinn á launum þeirra og hinna sem voru á almennum markaði var í raun viðbótargreiðsla fyrir lífeyrisréttindi. Sú staðreynd að hið opinbera „sveikst um“ að leggja þessa fjárhæð í sérstakan sjóð er ekki á ábyrgð starfsmannanna. Reiknað var út af tryggingastærðfræðingi að viðbótarréttindi opinberra starfsmanna samsvöruðu 21% viðbótariðgjaldi af heildarlaunum og svo komu hin almennu framlög til viðbótar, 10% af þeim 79% sem komu til útborgunar. Lengst af voru þetta því 21+7,9=28,9% af heildarlaununum eins og þau voru í raun. Síðustu árin hafa framlögin farið hækkandi úr 10% í 12% og nú 15,5%.
Lægri laun opinberra starfsmanna gegnum tíðina þýddu að þeir fórnuðu neyslu og lífsstíl á yngri árum fyrir betri kjör á efri árum. Þetta ættu allir að gera og, því miður, gerist það ekki með venjulegum frjálsum sparnaði.
Nú er að sögn verið að samræma laun og lífeyriskjör opinberra starfsmanna og þeirra sem eru á almennum vinnumarkaði. Samræmingin er „niður á við“, dregið er úr réttindum opinberra starfsmanna, í stað þess að auka réttindi hinna. Staðreyndin er samt sú, að þau 5,5% sem bætt hefur verið við þau 10% sem lengst af giltu og eru ráðandi um núverandi stöðu, eru engan vegin nægileg. Fólk verður að fresta neyslu og leggja enn meira fyrir til elliáranna. Reynslan sýnir að ekki er gott að treysta á ellilífeyri hins opinbera.
Sennilega eru þau lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna sem nú er verið að draga úr nær því að vera raunhæf en 15,5%-in. Sú staðreynd að ríkið lagði ekki mismun launa á almennum markaði og launa starfsmanna sinni í lífeyrissjóð kom óorði á fyrirkomulag sem var raunhæft og starfsfólkið borgaði sjálft fyrir með því að taka lægri laun út en aðrir.