„Það eru auðvitað bara vonbrigði að það skuli ekki vera stigið það skref að reyna að tryggja að rekstur Ríkisútvarpsins hafi ekki neikvæð áhrif á rekstur sjálfstæðra fjölmiðla eins og er staðan núna,“ segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Morgunblaðið.
Þetta er upphaf fréttar í Mogganum um nýjan samning milli ríkisins og Ríkisútvarpsins, sem Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hafa skrifað undir.
Meira úr frétt Moggans: „Með samningnum sem lesa má að heimasíðu Stjórnarráðsins fylgir sameiginleg yfirlýsing ráðherra og útvarpsstjóra vegna starfsemi RÚV sölu, sem er dótturfélag RÚV, á auglýsingamarkaði. Þar segir m.a. að í lögum um starfsemi RÚV sé tilgreint að félagið skuli gæta hófsemi í birtingu auglýsinga og ýmsar skorður settar á birtingu þeirra. Óli Björn segir þær skorður ekki hafa komið í veg fyrir að RÚV hafi dregið til sín auglýsingamarkaðinn og klofið dagskrárliði til að koma auglýsingum að.“