Greinar

Vonsvikið þingmannsefni?

By Miðjan

February 13, 2021

„Ég hafði gefið það út að ég sóttist eftir að fá að leiða lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, þar sem ég hef starfað sem þingmaður og oddviti síðan 2016 og þar áður í önnur þrjú sem virkur varaþingmaður. Ég hringdi ótal símtöl í lykilfólk í kjördæminu og félaga í flokknum, almenna kjósendur en ekki síður við fólk sem var tilbúið að ganga til liðs við Samfylkinguna. Það er skemmst frá því að segja að mér var afar vel tekið, sem gladdi mig mjög. En eftir því sem á leið rann upp fyrir mér að harðasti kjarninn sem myndaði uppstillingarnefndina í Kraganum væri ekki líklegur til að bjóða konu sem væri svo nýlega gengin í flokkinn oddvitasætið.“

Þannig skrifar Rósa Björk Brynjólfsdóttir skömmu eftir að hún var valin á annan framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Ekki er annað hægt að lesa vonbrigði út úr texta Rósu Bjarkar. „Þessi reynsla síðustu vikurnar hefur kennt mér margt. Ýmislegt gerðist sem ég vil gleyma sem fyrst en annað fer inn á reynslubankann og nýtist vel í næstu skref í stjórnmálunum,“ skrifar hún.

„Ég ákvað í fyrradag að þiggja boð uppstillingarnefndar í Reykjavík um að taka annað sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir kosningarnar í haust. Þar verð ég hluti af öflugum hópi sem ætlar að sækja fram fyrir Samfylkinguna og stefnir á sigur jafnaðarfólks í kosningunum þar sem ég mun halda mínum hjartans málum í pólitíkinni hátt á lofti,“ skrifar Rósa á Facebook.

 „En ég hlakka mjög mikið til þess að fá tækifæri til að ræða við kjósendur í Reykjavík næstu mánuðina og leggja mitt af mörkum fyrir græna atvinnustefnu, baráttuna gegn loftslagsbreytingum og fyrir femínisma og mannréttindum og önnur hjartans mál sem verða að komast sterkar á dagskrá en nú.“