Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, er vonsvikin. Fyrst ber að nefna að slitnaði hafi upp úr kjaraviðræðum BSRB og ríkisins. „Viðræðurnar höfðu þá staðið í hálft ár. Eftir miklar umræður og yfirlýsingar ríkisins um að von væri á „mestu vinnutímabreytingum í áratugi“ leyfði ég mér að vona að nú tækju við breyttir tímar með bættri heilsu starfsmanna,“ segir í grein Söndru sem birt er í Mogganum í dag.
„Tilboðið sem síðan barst í kjölfar yfirlýsinganna reyndist sorglega rýrt. Opinberum starfsmönnum var boðið upp á áframhaldandi 40 stunda vinnuviku, með möguleika á að semja á einstökum stofnunum um 13 mínútur á dag í skiptum fyrir kaffitíma og önnur áunnin réttindi. Slík vinnubrögð eru auðvitað algjörlega óviðunandi.“
Sandra bendir á alþekktar staðreyndir um hversu mikilvægt sé að stytta vinnutíma fólks. Hún nefnir vaktavinnu, en 89 prósent þeirra vinna á vöktum.
„Það sætir furðu að hvorki skuli votta fyrir skilningi né vilja ríkisins til að fjárfesta í betri heilsu eigin starfsmanna sem nú þegar eru undir miklu álagi. Á sama tíma og heilbrigðisráðherra talar fyrir heilbrigðisstefnu til ársins 2030, m.a. um heilsueflingu og bætta lýðheilsu landsmanna, er horft fram hjá fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir langtímaveikindi og örorku eigin starfsmanna. Mótsögnin hér er ærandi. Nú er sérstakt tækifæri til að fjárfesta í betri lýðheilsu, bættu starfsumhverfi og ánægðara starfsfólki með því að stytta vinnuvikuna,“ skrifar Sandra.
Að endingu skrifar Sandra: „Ríkið getur ekki vikið sér undan þeirri ábyrgð sem vinnuveitandi að skapa starfsfólki sínu sem sinnir almannaþjónustu góðar starfsaðstæður, sem ýta undir starfsánægju og aukið heilbrigði. Ríkið, og þar með sitjandi ríkisstjórn, á að ganga á undan með góðu fordæmi með því að bæta starfsumhverfi starfsmanna sinna og stytta vinnuvikuna. Það er hið eina rétta í stöðunni.“