Yfirlýsingar ráðherra um „áfrýjun“ eru einhvers konar meinloka.
Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, á sýnilega ekki sterkt bakland á ritstjórn Moggans. Ritstjórinn reynir að gera lítið úr hinum nýja dómsmálaráðherra.
„Yfirlýsingar ráðherra um „áfrýjun“ eru einhvers konar meinloka sem einhverjir hafa komið inn hjá honum, vonandi þó ekki þeir sömu sem séð hafa honum fyrir öllum villuljósunum varðandi orkupakka sem hefur verið dapurlegt að horfa upp á, ekki síst fyrir þá sem höfðu væntingar til þessa ráðherra.“
Skýrara þarf það ekki að vera. „Varla felst í áfrýjunartalinu fyrirheit ráðherrans um að hann muni telja sig bundinn af niðurstöðu þeirrar áfrýjunar? Sé svo þá verður ekki komist hjá því að ætla að ráðherranum sé enn meira uppsigað við íslensku stjórnarskrána en hollt er eða skiljanlegt,“ skrifar hinn vonsvikni ritstjóri eftir ráðherraskiptin, sem hann telur vera verk Katrínar Jakobsdóttur.
Áfram úr Hádegismóum:
„Þess utan hefur þessi ráðherra nú tvívegis skrifað undir eftirfarandi yfirlýsingu á Bessastöðum: „Ég undirrituð sem skipuð er ráðherra í ríkisstjórn Íslands lofa hér með og heiti því að halda stjórnskipunarlög landsins og gegna trúlega og dyggilega skyldum þeim er framangreint embætti og veitingarbréf mitt leggja mér á herðar.“ Þetta loforð við þjóð sína er ekki hægt refsilaust að teygja til eða toga og það gera menn varla heldur þótt þeir eigi það ekki við annað en samvisku sína. Hún er mörgum nokkurs virði.“
Varðandi afsögn Sigríðar Á. Andersen segir ritstjórinn: „Nú síðast varð að þvinga ráðherra til að axla ábyrgð á niðurstöðu mikils meirihluta þingsins án tafar, enda hlyti hún að geta syrgt móður sína þegar betur stæði í bælið hjá belgingsliði. Allt var það háttalag til hinnar mestu skammar.“
Og hvað ætli ritstjóranum þyki þá um dóminn sjálfan? „Rugldóm frá Strassborg má koma fyrir uppi í hillu við hliðina á skýrslum umboðsmanns Alþingis, eða með þeim í neðsta kjallara eins og plássleysið er orðið.“