Vonandi tekur sannur dýraverndunarsinni við umhverfisráðherraembættinu
„Sársauki og þjáning fuglsins, sumir liggja lengi særðir og limlestir – bíða jafnvel eftir, að blóðeitrun og drep ljúki kvölinni og líkni í lokin – er auðvitað hvergi tekin með í reikninginn. Hvað varðar NÍ, galvaska veiðimenn og ráðherra um slíkt!?“
Þannig skrifar Ole Anton Bieltved, formaður Jarðarvina í nýrri Moggagrein. Ole Anton er mjög gagnrýnin á veiðar á rjúpu. Hann hefur áhyggjur af framtíð rjúpustofnsins og er viss um að veitt sé mun meira en heimilt er.
„Vonandi tekur sannur dýraverndunarsinni við umhverfisráðherraembættinu því eina von rjúpunnar og íslenzka dýra- og lífríkisins virðist nú vera að ný umhverfisvæn ríkisstjórn og raunverulegur dýraverndunarsinni, með bein í nefinu, taki við umhverfisráðherraembættinu 2021,“ skrifar Ole Anton.
„Og, hver var svo staðan nú; haustið 2020? Eins og sjá hefur mátt og heyra í fjölmiðlum, hrundi rjúpnastofninn, vegna veðurfars og af öðrum ástæðum, sl. sumar. Varpstofninn á öllu landinu fór niður úr öllu valdi; var kominn niður í um 99.000 fugla. Hefur hann ekki verið veikari síðan talning og eftirlit með rjúpnastofninum hófst 1995. Var hann nú svipaður og árið 2002, þegar þáverandi umhverfisráðherra hafði manndóm í sér til að friða fuglinn.“
„Nú kom NÍ með plan um, að hver veiðimaður skyldi veiða 4-5 fugla, og, að þetta yrði allt bara gott og fínt aftur. Upplýsingar um meðalveiði undangenginna ára, upp á 10-15 fugla á veiðimann, frá UST, voru einfaldlega grafnar og gleymdar. Forstjóri NÍ segir svo í bréfi til umhverfisráðherra 5. október: „Skv. framangreindum útreikningum er ráðlögð veiði 2020 um 25.000 fuglar. Ráðlagður afli miðað við að um 5 þúsund veiðimenn gangi til rjúpna er því um 5 fuglar á mann“. Þetta fannst umhverfisráðherra skynsamlegt, raunsætt og fínt plan, og lagði blessun sína yfir það í hvelli.
Hér áður fyrr heyrði maður sögur af því, að rjúpnaveiðimenn færu jafnvel 3-4 daga til veiða, til að veiða tugi ef ekki hundruð fugla, og, eins og að framan greinir, var meðalveiði undangenginna ára, skv. veiðitilkynningum, 10-15 fuglar.
Tillagan, sem forstjóri NÍ lagði fyrir ráðherra og hann samþykkti án þess að blikka augum, að því er virðist, er auðvitað bara eins og hver annar „skítabrandari“.
Hver heilvita maður sér, að „5.000-6.000 manna dauðasveitin“ mun ekki hafa unnt sér friðar eða hvíldar fyrr en 70.000 til 90.000 fuglar lágu í valnum. Er ég þá að tala um þá fugla, sem náðust og taldir verða. Til viðbótar koma svokölluð „afföll“, þeir fuglar, sem særast og limlestast, en komast undan veiðimanni, sem gætu verið 20-30.000 fuglar.
Raunsætt og rétt tal kynni því að vera, að umhverfisráðherra hefði hér, illu heilli, heimilað dráp á allt 120.000 fuglum, eða upp undir helmingi allra fugla, sem eftir eru, að meðtöldum ungum 2020.
Og, hvað sögðu og gerðu veiðimenn? Þeir gerðu auðvitað ekki mikið með leyfðan fjölda opinberlega, hugsuðu þar eflaust sitt, með sjálfum sér, hins vegar heimtuðu þeir, og það með látum, að veiðitími yrði stórlengdur. 2017 voru leyfðir veiðidagar 12. 2018 voru þeir 15 og í fyrra þrýstu veiðimenn fjöldanum í 22, til að veiða 72.000 fugla. Nú mátti veiða 25.000 fugla, en veiðimenn heimtuðu enn fleiri veiðidaga.
Hver skilur þessa menn og þeirra afstöðu til lífríkisins og náttúrunnar?“