Völva Mannlífs gerir ráð fyrir að Bjarni Benediktsson sé á sínu síðasta kjörtímabili.
„Völva Mannlífs hefur rýnt í framtíðina. Hún sér fyrir breytingar hjá formanni Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Benediktsson stýrir fjármálaráðuneytinu af festu og öryggi. Hann er á réttum stað þar, þekkir starfið út og inn og er kominn með góða reynslu. Utan við starfið vill hann hins vegar sleppa fram af sér beislinu. Bjarni verður öflugur í skemmtanalífi á komandi ári. Hann er mikill sjarmör, orðheppinn og á afar auðvelt með að heilla samferðafólk sitt. Álag ráðherraembættisins og þingmennskunnar er farið að taka sinn toll. Ein birtingarmynd þess hjá Bjarna er að hann finnur hjá sér aukna þörf til skemmtana – hann leitar uppi áhyggjuleysi og gleði. Honum mun því bregða æ oftar fyrir á djamminu, glaðbeittum og örum.
Hann hefur mikla þörf fyrir að klæða af sér fjármálaráðherrann þegar úr vinnunni er komið og hætta að vera við stjórn.
Bjarni klárar kjörtímabilið en hættir svo þingmennsku. Hann er farinn að hugsa út og á árinu fer hann að skipuleggja næstu skref. Ég sé sendiherrastöðu í kortunum hjá honum – einhverja stöðu sem setið er um, vel staðsetta í „flottari kantinum“.“