- Advertisement -

Volodymyr Zelenskíj er leiðtogi hins frjálsa heims

Ólafur Stephensen:

Ef Úkraínumenn tapa þessu stríði töpum við öll. Einræðisöflin færa sig þá upp á skaftið á ný og við hættum á að glata öllu því sem áunnizt hefur eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk.

Mynd: Krisjanis Kazaks.

Í sjónvarpsþætti í gærkvöldi orðaði ég það svo að þessi maður, Volodymyr Zelenskíj, væri leiðtogi hins frjálsa heims. Hetjuleg barátta hans og úkraínsku þjóðarinnar gegn daglegum stríðsglæpum fasistastjórnarinnar í Kreml er barátta okkar allra sem aðhyllumst lýðræði og friðsamleg samskipti á alþjóðavettvangi. Ef Úkraínumenn tapa þessu stríði töpum við öll. Einræðisöflin færa sig þá upp á skaftið á ný og við hættum á að glata öllu því sem áunnizt hefur eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk.

Afturhvarf til ástands heimsmála á þriðja eða fjórða áratug síðustu aldar er ekki eftirsóknarvert – en það er það sem Pútín og aðrir einræðisherrar kjósa; að geta kúgað borgarana með lögregluvaldi og nágrannana með hervaldi og hryðjuverkum. Við skulum vera minnug þess hvað undanlátssemi við Hitler hafði í för með sér. Ef Pútín vinnur gætu Eystrasaltsríkin orðið næst til að verða fyrir barðinu á honum, enda er yfirlýst markmið hans að endurreisa hið forna rússneska heimsveldi. Kína gæti þá séð sér leik á borði að taka Taívan með hervaldi – og svo framvegis. Úkraína verður einfaldlega að vinna stríðið. Það verður sigur okkar allra sem viljum kenna okkur við frelsi og lýðræði.

Þú gætir haft áhuga á þessum

…stuðningur við Úkraínu er ekki ölmusa, hann er fjárfesting í öryggi og lýðræði á heimsvísu.

Það er rétt sem Zelenskíj sagði í ræðu sinni á Bandaríkjaþingi, að stuðningur við Úkraínu er ekki ölmusa, hann er fjárfesting í öryggi og lýðræði á heimsvísu. Við Vesturlandabúar megum ekki láta einræðisherrann Pútín þreyta okkur og missa áhugann á stríðinu í Úkraínu. Þetta snýst ekki um tímabundin óþægindi vegna hækkandi orku- eða matarverðs. Þetta er barátta upp á líf og dauða – ekki bara úkraínsku þjóðarinnar heldur vestræns lýðræðis og þeirrar heimsskipunar sem við aðhyllumst. Fyrir smáríki eins og Ísland er óendanlega mikilvægt að reglur alþjóðakerfisins séu virtar og að hinir sterku traðki ekki óáreittir á rétti hinna smáu.

Ísland á, hvar sem það hefur rödd, að tala fyrir því að lýðræðisríkin styðji Úkraínu með öllum hugsanlegum ráðum – með vopnasendingum, efnahagsaðstoð og með því að taka á móti úkraínskum flóttamönnum og veita þeim skjól þar til stríðið hefur unnizt. Okkar eigin stuðning við Úkraínu eigum við að efla, margfalt.

Zelenskíj er leiðtogi hins frjálsa heims – strengjum þess heit að standa þétt á bak við hann á nýju ári – mörg komandi ár ef með þarf. Við myndum sjá eftir því að standa okkur ekki í þeim stuðningi.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: