Stjórnmál / „En á hinn bóginn hafa áhrif og völd þingmanna veikst stórlega á síðustu áratugum. Um það þarf ekki að deila og gildar ástæður standa til þess og ekki endilega allar neikvæðar.“
Það er ritstjórinn Davíð Oddsson sem segir þetta í Reykjavíkurbréfi morgundagsins. Það sem Davíð segir sést glögglega í störfum Alþingis. Ráðherraræðið er ráðandi. Þingmenn í fjárlaganefnd hafa sagt starf nefndarinnar hafa stórbreyst. Nefndin tekur fáar ákvarðanir þó hún eigi að vera virkari þar sem Alþingi hefur fjárveitingarvaldið, eða hafði, en nú er það fjármálaráðuneyti Bjarna Benediktssonar. Davíð átti kannski ekki við þetta. Gefum honum orðið á ný:
„Þingmenn og áhrif þeirra skiptu miklu í augum borgaranna á meðan flest það sem gera þurfti varð fyrir opinberan atbeina. Öflug fyrirtæki hafa síðar komið til. Sveitarfélög sem áður máttu sín lítils hafa eflst og styrkst. Forsendan fyrir þessari þróun er frjálst og öflugt atvinnulíf með sérhæfða starfsmenn á öllum sviðum og þar sem svigrúm framsýnna einstaklinga er nægjanlegt.“
Hér er aðeins gælt við fólkið sem kostar útgáfu Moggans, fólkið sem borgar ritstjóralaunin.
„Því fer fjarri að þingheimur allur átti sig á þessari forsendu framfaranna. Þar halda of margir enn að fjármunirnir eigi uppruna sinn í sameiginlegum sjóðum og hugsa sjaldnast til þess hvar allt þetta fé var áður en það lenti þar og tók að rýrna, áður en það fór í opinbera brúkun og þó mest eftir að þangað var komið.“
Davíð fyrrverandi hefur ekki mikið álit á þingheimi.