Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, skrifar ítarlega grein Í Morgunblaðið í dag, þar sem hann minnist þess að nú eru tvö ár frá því að fyrrverandi ríkissjórnin kynnti áform um losun hafta.
Annað væri óhugsandi
Sigmundur Davíð skrifar um núverandi ráðamenn: „Forsætis- og fjármálaráðherra hafa enn ekki fengist til að svara spurningum um hvort samningar um losun hafta á aflandskrónur var liður í kaupum vogunarsjóðanna á Arion banka, né hvers vegna forkaupsréttur ríkisins að bankanum var gefinn eftir. Engu hefur verið svarað um samskipti stjórnvalda við vogunarsjóðina sem þó viðurkenna sjálfir að þeir hafi tekið ákvarðanir að undangengnum samskiptum við íslensk stjórnvöld. Enda væri annað óhugsandi.“
Algjör óvissa framundan
„Niðurstaðan er sú að stjórnvöld hafa tekið algjöra U-beygju gagnvart hinum aðgangshörðu vogunarsjóðum og eru að missa tækifærið til að laga íslenska fjármálakerfið úr höndunum. Óljóst er hvað vogunarsjóðirnir ætla að gera við Arion banka. Ekkert liggur fyrir um hvað stjórnvöld ætla sér með Landsbankann, en í millitíðinni mun bankinn einbeita sér að því að byggja nýjar höfuðstöðvar á einni verðmætustu lóð landsins. Staða hins ríkisbankans, Íslandsbanka, er svo algjör ráðgáta. Á meðan er vöxtum haldið tuttugu sinnum hærri en í Bretlandi á sama tíma og pundið fellur og íslenska krónan styrkist,“ skrifar hann og að lokum: „Það eina sem liggur fyrir er að sigurvegarar síðustu alþingiskosninga voru vogunarsjóðirnir og fjármálakerfið.“