Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, hefur svarað Inga Frey Vilhjálmarssyni, fréttastjóra DV.
Elliði segir meðal annars. „Auðvitað eru Vestmannaeyjar sérstakar. Hvorki betri né verri en aðrir sambærilegir staðir, en sérstakar. Á sama hátt þykir mér Eyjamenn sérstakir. Hvorki betri né verri en aðrir, en sérstakir. Orð mín þykja fréttastjóranum og skoðanasystkinum hans ekki merkileg. Svo vísað sé í pistilinn þá segir hann orð mín ala á heimsku og ég tali eins og ég sé vanviti. Svo líkir hann mér við nasista.“
Elliði gerir nokkuð úr hversu lítið Ingi Freyr virðist meta hann og segir: „Orð mín mega sín því lítils. Ég er líka bara af landsbyggðinni og ætti sjálfsagt að vera að veiða fisk – við gerum það þó vel samkvæmt skrifum fréttastjórans. Annað fólk er þó vonandi í meiri metum.“
Að lokum tekur Eilliði Baltasar Kormák fyrir skjöld:
„Þess vegna langar mig að að gefa Baltasar Kormáki orðið. Hann er ekki bara framúrskarandi listamaður heldur vandaður og góður maður, eftir því sem ég þekki hann. Þannig er hann vonandi betur til þess fallin að meta þetta hlutlægt en ég. Baltasar svaraði einmitt fullyrðingum fréttastjórans löngu áður en hann skrifaði pistilinn.
Þegar Baltasar tók við Eddu sem leikstjóri ársins sagði hann þetta um Vestmannaeyjar og Eyjamenn:
„Fyrst og fremst langar mig að senda Vestmannaeyingum kveðju. Það var frábært að gera þessa mynd. Höfðingsskapur, gestristni og það er eitthvað sérstakt í kakter Vestmannaeyinga sem að hrífur mig alveg rosalega. Þetta er eins og Íslendingur sem hefur verið tálgaður, það er bara það besta eftir hjá honum.“
Nú má vel vera að Ingi Freyr telji Baltasar líka vera eins og nasisti sem talar eins og vanviti. Hann dvelur jú löngum stundum á heimili þeirra hjóna á Hofi í Skagafirði og því með öllu óvíst að fréttastjórinn telji hann marktækan í umræðu um landsbyggðina.“