- Advertisement -

Víst er svigrúm

Gunnar Smári skrifar: Í raun er hálf hlægilegt að hlusta á málsvara varðstöðu hinna ríku um feng sinn halda því fram að krafan um 425 þúsund króna lágmarkslaun eftir þrjú ár valdi kollsteypu. Seðlabankinn mat nýlega svigrúm til 7,5 prósent launahækkana fram til 2020 en það jafngildir um 55 þúsund krónum á hvern vinnandi mann.

Það er því svigrúm til að hækka lágmarkslaun upp í 355 þúsund krónur. Þá þyrfti að hækka persónuafslátt um 42 þúsund krónur, í rúm 96 þúsund krónur, svo 355 þúsund króna heildarlaun gæfu sama eftir skatta og 425 þúsund krónur.

Það má vel fjármagna með því að skrúfa aðeins ofan af skattalækkunum nýfrjálshyggjuáranna á fyrirtæki og fjármagns, til dæmis með háskattaþrepi í fjármagnstekjuskatti, endurupptöku eignarskatts á eignir umfram eðlilegt íbúðarhúsnæði, hækkun tekjuskatts á fyrirtæki o.s.frv. Í raun mætti hækka skattleysismörkin upp í 300 þúsund krónur á mánuði (111 þúsund króna persónuafsláttur) án þess að færa skattkerfið aftar en til aldamóta.

Ég er ekki að leggja þetta til sem ásættanlega niðurstöðu fyrir Starfsgreinasambandið og VR, aðeins spyrja hvers vegna allt fólkið sem mætir í fjölmiðla og er sjálft með yfir milljón króna á mánuði leggur þetta til í stað þess að halda því fram að fólk sem sveltur á lágmarkslaunum í dag þurfi að svelta áfram því annars falli gengið og allt fari til andskotans.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: