Mannlíf

Vísindaskóli HA stofnaður

By Sigrún Erna Geirsdóttir

December 07, 2014

Úthlutun úr Menningar- og viðurkenningarsjóði KEA fór fram 27. nóvember í Hofi, menningarhúsi Akureyrar. Vísindaskóli HA hlaut styrk að upphæð 500.000 kr. vegna þátttökuverkefnis á sviði menningarmála. Veittir voru 34 styrkir úr Menningar- og viðkurkenningasjóði KEA.

Akureyrarbær hefur heitið svipuðu fjármagni til Vísindaskólaverkefnisins og einnig hefur fengist framlag frá Raftákni ehf. Vísindaskólinn er nýjung í starfi Háskólans á Akureyri og tilvist skólans byggist á framlögum frá einkaaðilum og fyrirtækjum en heildarkostnaður er áætlaður um fjórar milljónir.

Vísindaskóli HA er ætlaður ungu fólki á aldrinum 11-13 ára. Tilgangurinn er annarsvegar að auka valmöguleika þegar formlegu skólastarfi lýkur að vori og hins vegar að kynna háskólann fyrir ungmennum á svæðinu og færa hann nær norðlenskum heimilum. Boðið verður upp á fjölbreytt námskeið sem tengjast hefðbundnu námsframboði skólans og munu kennarar og nemendur HA sjá um kennsluna. Hluti starfsins fer fram innan veggja skólans en einnig fara nemendur hjólandi í vettvangsferðir og hitta sérfræðinga í ólíkum störfum, meðal annars í sjávarútvegi og fjölmiðlum. Vísindaskólinn verður starfræktur í fyrsta sinn í júní 2015 og verður framvegis árlegur viðburður.

Sigrún Stefánsdóttir forseti hug- og félagsvísindasviðs HA tók við styrk Vísindaskólans.