Vilhjálmur Birgisson skrifaði:
Þetta ár byrjar eins og öll önnur þ.e.a.s fyrirtæki og sveitarfélög halda uppi viðteknum hætti og varpa hækkunum miskunnarlaust á almenning í upphafi hvers árs!
Ég fjallaði rétt fyrir áramót um umtalsverða hækkun fasteignagjalda hér á Akranesi þar sem t.d. fólk í fjölbýlishúsum er að fá yfir 17% hækkun. Í morgun fékk ég sent frá manni yfirlit yfir hækkanir á tryggingum hjá VÍS en þær nema 14% en engar breytingar voru á hans tryggingum milli ára og hefur hann verið tjónlaus í tvö ár.
Þetta eru hækkanir sem eru langt umfram hækkun neysluvísitölunnar sem var 4,8% og það er ljóst að enn og aftur ætla mörg fyrirtæki ekki að taka þátt í þeirri vegferð sem verkalýðshreyfingin var tilbúin að fara með hófstilltum langtíma kjarasamningi.
Þetta framferði fyrirtækja og sveitarfélaga er með öllu óboðlegt enda munum við aldrei ná tökum á verðbólgunni né ná að lækka vexti ef allir ætla ekki axla sína ábyrgð í þeirri vegferð. Eitt er víst að launafólk og heimili þessa lands munu ekki ein geta axlað þá ábyrgð.
Það mun koma í ljós á næstu vikum hvort aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins meintu eitthvað með því að ætla að leggja sín lóð á vogaskálarnar við að „berja“ niður verðbólguna með því að halda aftur af verðlagshækkunum. Ef það ekki gerist þá er allt eins líklegt að forsendur kjarasamninga muni bresta á þessu ári skv. forsenduákvæðum kjarasamningsins!