„Þegar þjóðir verða fyrir áfalli er nauðsynlegt að finna sökudólga og bankamennirnir sem hafði verið lyft upp á stall og margverðlaunaðir lágu vel við höggi. Þessi aðferð hentar sérstaklega vel stjórnmálaflokkum þar sem málefnastaðan er fátækleg,“ skrifar Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Moggann í dag. Hann styðst við bók Sigurðar Más Jónssonar um afnám hafta.
„Umræðan var á þann veg að alþjóðleg bankakreppa væri í raun eingöngu hér á landi og stafaði af óheiðarlegum bankamönnum sem bæru alfarið sök á ástandinu. Einn ráðherra vinstristjórnarinnar orðaði það svo að íslenskir bankamenn væru þeir verstu í heimi. Þessi aðferð að leita sökudólga hér á landi við alþjóðlegum kreppum er ekki einungis röng, heldur beinlínis heimskuleg. Þetta hljómaði að sjálfsögðu vel í eyrum erlendra kröfuhafa, sem komu skipulega á framfæri upplýsingum til fjölmiðla. Þeir væru fórnarlömb óprúttinna bankamanna og eðlilegt að löggjöfin tæki mið af því,“ skrifar Brynjar og svo æsist leikurinn.
„Hér gegndu fjölmiðlamenn eins og Þórður Snær hjá Kjarnanum og Sigrún Davíðsdóttir hjá Ríkisútvarpinu lykilhlutverki. Þessi vænisýki náði hámarki í Icesave-málinu, en þar komst trommuleikarinn Vilhjálmur Þorsteinsson, eigandi Kjarnans og þáverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar, að þeirri niðurstöðu að okkur bæri siðferðisleg skylda til að greiða erlendum kröfuhöfum bankainnistæðurnar óháð því hver niðurstaða innlendra sem alþjóðlegra dómstóla yrði.“