„Furðu sætir að VG, flokkur sem kennir sig við græna stefnu, skuli hafa gerst þátttakandi í þessum leiðangri með orkupakka 3, í stað þess að beita sér fyrir að styrkja almannaeign á orkuauðlindinni og stilla til um hóflega nýtingu hennar,“ þetta er með því sem lesa má í grein eftir Hjörleif Guttormsson, einn af stofnendum VG og fyrrum ráðherra.
Hjörleifur segir einnig: „Fyrir dreifbýlið er hér sérstaklega mikið í húfi og því óskiljanlegt að þeir sem telja sig talsmenn þeirra sem þar þrauka skuli gerast ábekingar á orkupakka 3, þar með talið þinglið Framsóknarflokksins.“
Hjörleifur er rómaður náttúruverndarmaður. „Í stað þess að breyta Orkustofnun í verkfæri í höndum ESB ætti að tryggja að stofnunin lúti betur almannahagsmunum en nú gerist, þar á meðal um verndun og hlífð gagnvart náttúru landsins. Annað hefur því miður verið upp á teningnum eins og gagnrýnislaus rannsóknarleyfi til virkjanaundirbúnings bera ljósan vott um. Löngu er tímabært að færa málefni Orkustofnunar undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið til að tryggja eðlilegt samræmi og mat á auðlindavernd og nýtingu.“
Hjörleifur vill að þjóðin verði spurð.
„Áður en til endanlegrar afgreiðslu kemur af hálfu Alþingis í stórmáli sem þessu ætti að teljast sjálfsagt að gefa almenningi kost á að segja sitt álit í þjóðaratkvæðagreiðslu. Verði málið knúið í gegn með þeim hætti sem nú stefnir í mun það óhjákvæmilega styrkja þær raddir sem nú þegar gera kröfu um löngu tímabæra endurskoðun á EES-samningnum, þar á meðal varðandi kaup á jarðnæði hérlendis.“