„Ég hef þá skoðun að þetta sé bæði valdafíkn, sjálfsdýrkun og athyglisfýsn. Að halda að hún ein geti breytt grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins, sem er varnarmúr auðvaldsins sem engu vill breyta (stöðugleiki orð Bjarna Ben.), og einstefnu Framsóknar er hámark sjálfsdýrkunar.“
„Það velta því margir fyrir sér hver sé tilgangur Katrínar forsætisráðherra að mynda ríkisstjórn með tveimur íhaldssömustu flokkum á Alþingi. Telur hún sig vera þar til að verja kjör láglaunaalþýðufólks eða er þetta valdagræðgi einstaklings? Þessa spyrja sig margir og hafa enga skýringu fengið, hvorki frá henni né þeim samtökum sem kusu hana til setu á Alþingi,“ skrifar eldri borgarinn Hafsteinn Sigurbjörnsson í Mogga dagsins.
„Ég hef þá skoðun að þetta sé bæði valdafíkn, sjálfsdýrkun og athyglisfýsn. Að halda að hún ein geti breytt grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins, sem er varnarmúr auðvaldsins sem engu vill breyta (stöðugleiki orð Bjarna Ben.), og einstefnu Framsóknar er hámark sjálfsdýrkunar.
Nú er stjórnmálaflokkurinn Vinstri-grænir – stofnaður af Steingrími Sigfússyni og verið talinn vinstrisinnaðasti stjórnmálaflokkurinn í landinu, þ.e. helsti málsvari láglaunafólks og öryrkja – kominn í þjónustu auðvaldsins. Þetta hefur Katrín Jakobsdóttir ekki bara gert einu sinni, heldur nú í annað sinn. Öryrkjar, einstæðar mæður og annað fólk sem býr við erfiðar aðstæður á engan hauk í horni þar sem Katrín er,“ skrifar Hafsteinn.
Hafsteinn:
„En nú er svo komið að hún og pólitíkusarnir hækka laun sín en láta ellilífeyrisþega og öryrkja lepja dauðann úr skel.“
Og hann er ekki hættur:
„Katrín reyndi í síðustu ríkisstjórn að hefja umræður um breytingar á núverandi stjórnarskrá er varða forseta landsins. En þaðan fór hún bónleið til búðar og sem forsætisráðherra hefði hún átt að fara beint til forseta landsins og biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. En þetta lét hún ganga yfir sig, sem er með eindæmum. Hún virðist vera sem dúkkulísa í hendi Bjarna og Sigurðar. En það er ein leið til að bjarga þessu og hún er sú að fólk innan VG krefjist flokksfundar sem krefst breytinga á þessari stöðu. Þessi kona á bágt og leitt til þess að vita, því hér er engin þriggja flokka ríkisstjórn, aðeins tveggja flokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.
Ég tel að Katrín hefði, sem sönn vinstrimanneskja, getað myndað ríkisstjórn með nöfnu sinni og öðrum flokkum en íhaldinu og Framsókn og með því breytt því stjórnarfari sem hér er og komið ýmsu til leiðar sem brýn nauðsyn er á, t.d. varðandi stjórnarskrána, að stöðva auðsöfnun fárra á kostnað fátæklinga, krefja erlent ferðafólk um greiðslu við komuna til landsins eins og víða er gert, hefja baráttu við auðsöfnun lífeyrissjóðanna og pókerspilamensku þeirra með lífeyri gamla fólksins, styrkja tilvist landsbyggðarinnar með flutningi ýmissa ríkisstofnana út til byggðanna og margt fleira.“
Og Hafsteinn endar greinina svona: „En nú er svo komið að hún og pólitíkusarnir hækka laun sín en láta ellilífeyrisþega og öryrkja lepja dauðann úr skel.
Ofangreint er ályktun mín um gjörðir Katrínar Jakobsdóttur.“