Svo mikil andstaða er við þjóðgarð á hálendinu að stjórnarheimilið leikur á reiðiskjálfi. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins spyrna við fótum. Í orði hið minnsta. Held að það séu þeir sömu og krepptu hnefann framan í orkupakkann. Sem þeir kokgleyptu fáum vikum síðar. Það sem þeim áður þótti ógerningur varð síðar framfaraskref í huga þeirra. Svo sögðu þeir hið minnsta.
Eins og áður hefur komið fram hér á Miðjunni hefur böndum verið komið á Davíð Oddsson. Hann gekk nærri Sjálfstæðisflokki með endurtekinni gagnrýni. Í dag er hann dreginn á flot. Hann skrifar í leiðara:
„Augljóst er, þegar þau sjónarmið sem umhverfisráðherra hefur sett fram eru skoðuð, að meginmarkmiðið með þjóðgarði sem spannar allt hálendi landsins er að koma í veg fyrir frekari virkjanir á svæðinu. Öðrum markmiðum mætti ná fram á annan hátt.“
Þetta er einmitt málið. Vinstri græn leggja alla áherslu á umhverfismálin og þar er þjóðgarðurinn stóri flaggskipið. Þingmenn eins og Jón Gunnarsson og Páll Magnússon, svo einhverjir séu nefndir, tala fast gegn áformunum. Nú stefnir í átök milli þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. Deigt er í báðum fylkingum.
Fram undan eru einhvers konar átök. Fyrir fram má gera ráð fyrir sigri Sjálfstæðisflokksins. Að vinstri græn kyngi einum kúkamolanum í viðbót.
-sme