„…áframhaldandi hugur eins stjórnarflokksins væri á því að ljúka vinnu við einhvers konar þjóðgarð á hálendi Íslands…“
„Við Framsóknarmenn höfum til að mynda sett fram mjög skýra afstöðu til þeirrar hugmyndar sem hér var á síðasta kjörtímabili, að hún gengi allt of langt,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson á Alþingi, um vilja Vinstri grænna á síðasta kjörtímabili.
„Ég held að við höfum verið með einhverja tíu fyrirvara þar að lútandi, sjö sérstaka og þrjá til viðbótar við það. Þess vegna var alveg ljóst að þegar við settum saman nýja ríkisstjórn, og það var líka vitað að áframhaldandi hugur eins stjórnarflokksins væri á því að ljúka vinnu við einhvers konar þjóðgarð á hálendi Íslands, þá myndum við reyna að finna leiðir til þess í samræmi við samþykkt þingsins en líka í samræmi við stefnu hvers flokks fyrir sig sem við fórum með út í kosningar,“ sagði formaður Framsóknar.
Fáum mínútum síðar sagði hann:
„En ég vil líka leggja áherslu á aðra grein í stjórnarsáttmálanum þar sem lögð er rík áhersla á samtal og samvinnu við heimamenn um þessa útfærslu. Það er alveg rétt að orku- og umhverfisráðherra hefur þetta verkefni með höndum. En forskriftin er ágæt í stjórnarsáttmálanum og um hana er ágæt sátt á milli stjórnarflokkanna. Ég tel að þarna gæti verið hin ágætasta leið til að segja: Hér erum við komin með þjóðgarða í kringum jökla, við erum jú með Vatnajökulsþjóðgarð, okkar stóra þjóðgarð, og værum þá að bæta við þjóðgörðum í kringum Hofsjökul, Langjökul og hugsanlega aðra minni jökla,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra og formaður Framsóknarflokksins.