Vinnum lengur en afköstum minna
„Víða hefur það sýnt sig að með því að stytta vinnutíma án þess að skerða laun hefur tekist að ná fram aukinni framleiðni. Vinnutilhögun fólks verður skipulagðari og nýting vinnutímans batnar. Vissulega er þetta breytilegt eftir atvinnugreinum og eðli starfa en rannsóknir leiða í ljós að þetta á sérstaklega við um vinnustaði þar sem fólk vinnur langa vinnudaga, líkt og mjög algengt er víða á Íslandi,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, meðal annars í grein sem birist í Reykjavík vikublaði.
Elín Björg bendir á að jafnaði vinna Íslendingar talsvert lengri vinnudag en tíðakst á öðrum Norðurlöndum. „Samt afkasta Íslendingar ekki jafn miklu og nágrannaþjóðirnar auk þess sem laun hér á landi eru talsvert lægri. Langir vinnudagar skila því hvorki hærri heildartekjum launafólks né betri framleiðni. Þvert á móti verður frítími minni og afköst lakari sem hefur í för með sér óhagræði jafnt fyrir launafólk sem atvinnurekendur. Talsvert hefur verið rætt um að æskilegt sé að breyta þessu mynstri en lítið framkvæmt til að svo geti orðið. Þó eru jákvæð teikn á lofti um að eitthvað kunni að gerast í þessum málum á næstunni.“
Elín Björg skrifar einnig: „Það er líka umhugsunarvert hvort ekki sé rétt að kanna alla möguleika til að stytta vinnudaginn þar sem rætt er um að hækka lífeyristökualdur og þar með lengja starfsævina. Við vinnum nóg nú þegar og það bitnar oft á samverustundum með fjölskyldu. Ein mesta lífsgæðabót sem vinnandi fólki er hægt að færa er þess vegna minna álag og hóflegri vinnutími. Og ef það er útfært með skynsömum hætti getur ábatinn verið allra. Ef hægt er að ná fram framleiðniaukningu í sama hlutfalli og styttingu? vinnutímans er hægt að halda launakostnaði óbreyttum þótt tímakaup hækki. Víða hefur þetta tekist og jafnvel eru dæmi um að hlutfallsleg framleiðni hafi aukist umfram styttingu vinnutímans. Með því tekst að auka frítíma fólks og auka hagkvæmni. Fólk verður ánægðara í störfum sínum og skilar betra starfi. Kostir styttri vinnutíma eru þannig í mörgum tilfellum ekki aðeins miklar félagslegar umbætur heldur einnig efnahagslegar.“
Afritaðu og límdu þessa vefslóð í WordPress vefinn þinn til þess að fella inn
Afritaðu og límdu þennan kóða yfir í vefinn þinn til þess að fella inn