Ekki greiða þeir fyrir samningum með þessum vinnubrögðum.
Björgvin Guðmundsson skrifar:
Upplýst hefur verið að engin grein atvinnurekstrar hefur brotið eins mikið kjarasamninga og ferðaiðnaðurinn. Síðan bætist það við, þegar verkföllin hefjast, að þessi sama grein atvinnurekstrar fremur meiri verkfallsbrot en aðrar greinar og eftir því sem Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sagði í gær var um ásetningsbrot að ræða hjá atvinnurekendum.
Framkoma atvinnurekenda í verkföllunum undanfarið er með ólíkindum. Þannig reyndu vissir hóteleigendur eða fulltrúar þeirra að fá ákveðna starfsmenn hótelanna til þess að neita að taka þátt í verkfalli og/eða verkfallsvörslu með hótunum um, að þeir mundu missa vinnuna, ef þeir færu í verkfall. Þetta er með ólíkindum.
Sumir stjórnendur hótelanna haga sér eins og menn höguðu sér í vilta vestrinu. Atvinnurekendur þurfa að fara átta sig á því að þeir geta ekki áfram fengið vinnu lægst launaða starfsfólksins á útsöluverði. Þeir verða að borga þessu fólki mannsæmandi laun, sem unnt er að lifa af. Geti þeir það ekki eru þeir ekki færir um að reka atvinnufyrirtæki.