Bráðaaðgerð ríkisstjórnarinnar gegn krónunni, og þá um leið lífskjörum almennings, hefur ekki gengið einsog til var ætlast. Alls ekki. Krónan, sú óútreiknanlega skepna, virðist ætla að standa af sér bráðaaðgerð Engeyinganna.
Engum hefur dulist krafan um gengisfellingu. Krafan hefur komið frá öflugustu atvinnurekendum landsins. Svo fór að boðað var til bráðaleynifundar í New York þar sem kröfuhöfum var boðinn mikið fínni díll en þeir höfðu áður séð. Gengisfellingin átti að vera í felubúningi losunnar fjármagnshafta.
Eitt þarf að upplýsast. Það er hvort handhafar íslenska ríkisins hafi boðið vogunarsjóðunum strax 137 og hálfa krónu fyrir hverja evru. Taket or lifet. Eða varð díllinn til eftir þref og átök? Hver var upphafspunkturinn?
Benedikt Jóhannesson var kannski fullfljótur að flagga. Hann hafði gert ráð fyrir og spáð reyndar að Már Guðmundsson, og hans fólk, myndi lækka vextina. Nei, það gekk ekki eftir.
Útgerðin og ferðaþjónustan báðu um, eða jafnvel kröfðust, gengisfellingar. Það var reynt að verða við kröfunum. Krónan brást þeim. Hún hagar sér einsog korktappi. Flýtur sína leið.
Eftir allt, er staðan nánast óbreytt. Vextirnir þeir sömu, krónan er söm við sig, og eflaust minnkar ekki þrýstingurinn á þá frændur Bjarna og Benedikt.
Ekki tókst að skerða lífskjörin. Ekki enn. Ekki í þessari atrennu.
Sigurjón M. Egilsson.