Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður, hæðist að nafna sínum Birgissyni á Akranesi, formanni Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélagsins í sínum heimabæ.
„Seðlabankastjórinn á Akranesi vill að vísu engar verðleiðréttingar þannig að skatturinn verður ekki vandamál. Fyrrverandi félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness og félagar í Lífeyrissjóði Vesturlands munu greiða fyrir framgangi peningamálastefnu seðlabankastjórans. Einhver borgar fyrir örlætisgerninga seðlabankastjórans,“
Villi Bjarna bankar létt í þing og ríkisstjórn:
„Svo virðist sem stjórnmálamenn telji að athyglissýki sinni sé best sinnt með Morfís-æfingum á Alþingi. Það er engin eftirspurn eftir stjórnarandstöðuleiðtogum á leiðtogafundum Evrópuráðsins. Ráðherravesalingarnir þurfa fremur að vera á leiðtogafundinum en að hlusta á gagnslausar Morfís-æfingar í sölum þingsins.
Sumir stjórnarþingmenn eru ef til vill ekki betri en gamlir grillufangarar í nýsnilli sinni.
Nýsnillingarnir finna það út að bankarnir skila hagnaði! Engum dettur í hug að greina uppruna hagnaðar bankanna. Hver er uppruni hagnaðar íslenskra banka?
Það er ekki flókið mál. Allir innlánareikningar skila neikvæðri ávöxtun. Útlán eru með jákvæðum raunvöxtum. Ef til vill ekki nógu hárri.“
Fjölmiðlafólk fær sína sneið frá Villa:
„Tilgáta mín er að íslenskt fjölmiðlafólk sé efnahagsvandamál. Fyrir utan að vera sjálfskipaðir siðgæðisverðir, þá er fjölmiðlafólk að því er virðist illa haldið af skuldum sínum og eigin efnahagserfiðleikum. Og því miður alls ekki efnahagslega læst. Og siðgæðisvitundin er að hentistefnu skuldarans.
Má ég spyrja: Hvaðan kemur lífeyrissjóðum sú siðferðilega skylda að gefa eftir samningsbundin kjör í samningi við Íbúðalánasjóð? Kjör, sem langhæfasti umsækjandi um starf forstjóra Íbúðalánasjóðs bauð.“
Það var og. Þetta eru aðeins hlutar af langri Moggagrein Viðhjálms Bjarnasonar.