Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður valdaflokksins við Háaleitisbraut, skrifar langa grein í Mogga. Ekkert sérstaka. En þó Villi byrjar svona: „Í stjórnmálaumræðu samtímans verður stöðugt erfiðara fyrir venjulegt fólk að halda uppi vitrænum samræðum við ofurgáfað fólk á vinstri hlið stjórnmála. Algengustu slagorð gáfufólks á vinstri hlið eru jöfnuður, réttlæti og feðraveldi.“
Hann reynir að hæða þá sem eru annarra skoðunar en þau í valdaflokknum. Síðar í greininni skrifar hann texta sem er hreint ótrúlegur:
„Einn ágætur félagsmálaráðherra sagði að á Íslandi væri aðeins til fátækt í einni starfsstétt. Það væru aðeins til fátækir bændur. Sennilega er þetta rétt hjá ráðherranum því sauðfjárbændur hafa ekkert upp í laun og fastan kostnað af búrekstrinum. Það eru aðeins greiðslur samkvæmt búvörusamningum sem gefa skítleg laun fyrir sauðfjárbændur.“
Heyr á eindæmi. Allt um kring er fólk sem valdaflokkurinn beitir ofbeldi. Dag eftir dag. Öryrkjar fá mánaðarlega greiidar rétt rúmar 240 þúsund krónur. Allt það fólk er fátækt og á enga von um betri tíð. Skilningsleysi þingmannsins og annara ámóta er helsta ástæða þess hvernig komið er fyrir öryrkjum. Valdaflokksfólkið skilur ekki neitt. Það er ekkert verr gefið en annað fólk. Þessi þröngsýni og kaldlyndi kemur með uppeldinu. Grjóthörðu.
Villi Bjarna á stundum til með að vera fyndinn. Þá á annarra kostnað. „Sauðfjárrækt er lífsstíll fremur en alvöruatvinnugrein. Framleiðslan er langt umfram eftirspurn innanlands og stórlega niðurgreitt afurðaverðið er ekki samkeppnishæft við aðra innlenda kjötframleiðslu. Útflutningur hefur mistekist.“