- Advertisement -

Villi Birgis vill fínt hótel á Akranes

„Mitt mat er einfalt, við verðum að snúa vörn í sókn.“

Vilhjálmur Birgisson.

Byggðamál „Það dylst engum Akurnesingi að atvinnuástandið hér á Akranesi er engan veginn ásættanlegt enda höfum við þurft að þola miklar hremmingar hvað atvinnulífið varðar á liðnum misserum og árum. Mitt mat er einfalt, við verðum að snúa vörn í sókn og efla af krafti gjaldeyrisskapandi störf innan okkar bæjarfélags,“ skrifar Vilhjálmur Birgisson formaður verkalýðsfélagsins á Skaganum og svo er hann einnig formaður Starfsgreinasambandsins.

„Ég var nýverið bæði á Ísafirði og Húsavík og þar blómstrar mannlífið samhliða gríðarlegri aukningu á gjaldeyrisskapandi störfum tengdum ferðaþjónustunni. En grundvöllur þess að sveitarfélög geti tekið þátt í ævintýrinu í kringum ferðaþjónustuna er að hafa öflug hótel og gistingu á staðnum. Án hótels er útilokað að við Akurnesingar verðum þátttakendur hvað ferðaþjónustu varðar.

Við verðum að finna leiðir til að laða að fjárfesta til að reisa öflugt hótel hér á Akranesi og þar spila bæjaryfirvöld að mínu mati stórt hlutverk.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég tel að við Akurnesingar eigum að spila djarft til að finna áhugasama fjárfesta og ein leið í því er að auglýsa eftir alvöru fjárfestum til að reisa stórt og öflugt hótel hér á Akranesi og framlag bæjarins væri að útvega „fría“ lóð á góðum stað ásamt hugsanlegum öðrum ívilnunum.

Eitt er víst að eitthvað verðum við að gera til að elfa gjaldeyrisskapandi atvinnutækifæri hér á Akranesi og tryggja að við getum tekið þátt í ævintýrinu sem ríkir í íslenskri ferðaþjónustu.

Það kostar að skapa atvinnutækifæri en ég er sannfærður um að ávinningurinn af því að skapa jákvæð skilyrði fyrir fjárfesta til að reisa hér öflugt hótel er margfalt meiri en að skapa þau skilyrði.

Samhliða öflugu nýju hóteli skapast tugir nýrra starfa ásamt tugum afleiddra starfa ásamt því að verslun og þjónusta myndi eflast.

Hugsið ykkur að í Grenivík fyrir norðan er verið að reisa 40 herbergja lúxushótel á sama tíma er ekki eitt einasta hótel hér á Akranesi og núna þurfa bæjaryfirvöld að hafa kjark, þor og vilja til að laða að sterka fjárfesta. Á það jafnt við fjárfesta til að reisa hótel sem og aðrar gjaldeyrisskapandi greinar.

Við Skagamenn vil ég segja stöndum saman og hefjum öfluga sókn í atvinnumálum okkar Akurnesinga enda höfum við upp á margt að bjóða ásamt því að vera með alla innviði uppá 10. Allt sem þarf er samstaða, vilji og þor! Áfram Akranes!“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: