- Advertisement -

Villi Birgis varð orðlaus

Ég spyr, hvar eru umhverfissinnarnir núna? Og hvar eru Vinstri grænir?

„Ég horfði á Kveiksþáttinn í gær um sölu Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja á upprunavottorðum til annarra landa. Ég skal fúslega viðurkenna að ég er gjörsamlega orðlaus enda virðist græðgi orkufyrirtækja vera svo taumlaus að þau er nánast tilbúin að selja sálu sína fyrir einhverjar krónur,“ skrifaði Vilhjálmur Birgisson.

„Takið eftir kæru félagar við Íslendingar erum svo gæfurík og heppin að eiga hér hreinustu og grænustu orku í heiminum og við höfum haldið því hátt á lofti að öll okkar orka sé endurnýjanleg og tandurhrein. En nú hefur komið í ljós í þessum Kveiksþætti með afgerandi hætti að Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki eru að selja upprunavottorð á hreinu orkunni okkar til umhverfissóða í öðrum löndum til að hjálpa þeim að halda áfram að knýja sína starfsemi áfram með afar mengandi hætti.

Rétt er að geta þess að Landsvirkjun og önnur íslensk orkufyrirtæki hófu sölu á upprunavottorðum raforku árið 2011. Í gögnum Orkustofnunar kemur fram að það ár hafi 89% raforkunnar á Íslandi verið endurnýjanleg orka. Hins vegar var 5% hlutdeild orkunnar framleidd með kjarnorku og 6% með jarðefnaeldsneyti.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Svona er nú komið fyrir hreinorkulandinu Íslandi.

Takið eftir þessu, árið 2018 var hreina íslenska raforkan aðeins orðin 11% af heildarsölu raforku á Íslandi samkvæmt tölum Orkustofnunar. Þá var 34% orkunnar framleidd með geislavirku úrani og 55% raforkunnar voru sögð framleidd með jarðefnaeldsneyti, eða kolum, olíu og gasi. Svona er nú komið fyrir hreinorkulandinu Íslandi.

Að hugsa sér Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki er að selja hreinu orku þjóðarinnar til umhverfissóða sem fá í staðinn að segja að þeirra vörur og starfsemi séu framleiddar með vistvænni grænni orku og í staðinn er sagt að við séum að knýja okkar iðnað, heimili og aðra starfsemi með geislavirku úrani, jarðefnaeldsneyti eða kolum og gasi. Ég spyr, hvar eru umhverfissinnarnir núna? Og hvar eru Vinstri grænir? Að láta Landsvirkjun sem eru í eigu íslensku þjóðarinnar selja einhver upprunnavottorð til fyrirtækja og stofnanna í öðrum löndum til þess að geta sagt „okkar vara og starfsemi er framleidd með hreinni orku“, þegar raunin er alls ekki sú.

Með þessu erum við að hjálpa umhverfissóðum um víða veröld að taka ekki á sínum vandamálum heldur leggja þeim lið með því að blekkja neytendur um að þeirra framleiðsla sé unnin með hreinni orku þegar svo er alls ekki. Láta svo íslensku þjóðina líta út eins og örgustu umhverfissóða sem knýja heimili og fyrirtæki t.d. með kolum og geislavirku úrani.

Á græðgi Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja sér enginn takmörk? En oft hefur verið sagt um gráðuga einstaklinga að þeir myndu selja „ömmu“ sína ef þeir gætu og mér sýnist að græðgi orkufyrirtækja eigi vel við slíkar lýsingar.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: