Forsetakjör
Vilhjálmur Birgisson skrifaði grein til stuðnings Katrínar Jakobsdóttur. Fjöldi skrifaði á Facebookvegg Vilhjálms. Flest andmæltu honum og sum spöruðu ekki stóru orðin. Vilhjálmur skrifaði þessa grein á eigin Facebooksíðu:
„Ég get ekki orða bundist yfir sumum athugasemdum sem birtust undir mynd þar sem fram kom að ég ætli persónulega að styðja Katrínu Jakobsdóttur í komandi kosningum til embættis forseta Íslands.
Það er sorglegt og dapurlegt að verða vitni að því að sumt fólk skuli ekki virða sjálfstæðan rétt hjá hverjum þeim sem hefur kosningarrétt til að ákveða hvaða aðila það treystir best til að gegna þessu mikilvæga embætti sem forsetaembættið er.
Aldrei myndi ég skipta mér af því hvaða aðila fólk ætlar að styðja opinberlega til embættis forseta Íslands, enda kemur mér það ekkert við. Munum að virða sjálfstæðan rétt hjá hverjum og einum að ákveða hvern frambjóðenda það mun styðja.
Að sjálfsögðu hafa ugglaust allir frambjóðendur eitthvað gott fram að færa til að gegna þessu embætti en það er ákvörðun hjá hverjum og einum að ákveða hverjum þeir treysta best í þetta embætti.
Að sjálfsögðu höfum við ólíkar skoðanir hvern við viljum sjá og treystum best til að verða næsti forseti lýðveldisins, en virðum skoðanir hvors annars án þess að ata þá skoðun og frambjóðanda auri. Ég mun aldrei taka þátt í slíku enda virði ég ætíð sjálfstæðan rétt hvers og eins til að hafa sína skoðun.
Hins vegar er ekkert að því að skiptast málefnalega á skoðunum um frambjóðendur en ég geri þá lágmarkskröfu að það byggist á málefnalegum forsendum og án skítkasts.
Ég vil taka það skýrt fram að ég deili ekki sömu pólitísku skoðunum og Katrín í mörgum málum þrátt fyrir það tel ég hana góðan kost fyrir íslensku þjóðina sem forseta Íslands.
Ástæðan er sú að ég hef persónulega átt í töluverðum samskiptum við Katrínu á liðnum árum í tengslum við kjarasamninga og öll þau samskipti hafa verið byggð á trausti og trúnaði.
Það sem ég tel best í hennar fari er að hún er alþýðleg, laus við hroka, yfirlæti og snobb sem því miður einkennir sumt fólk sem hefur mikil völd og því til viðbótar virðist Katrín eiga afar gott með að leiða saman og vinna með fólki með ólíkar skoðanir.
Einnig tel ég Katrínu hafa yfirgripsmikla þekkingu á stjórnskipan Íslands og hefur mikla reynslu á erlendum vettvangi sem forsætisráðherra. Það er staðföst trú mín að þessi víðtæka reynsla Katrínar jafnt á innlendum sem erlendum vettvangi muni reynast þjóðinni vel nái hún kjöri sem næsti forseti Íslands.
Á þessum forsendum mun ég styðja Katrínu Jakobsdóttur í komandi forsetakosningum.“