„Mig langar að fylgja eftir þeirri umræðu sem ég hóf hér um endurvinnslu á heyrúlluplasti,“ sagði Jón Gunnarsson á Alþingi í gær.
„Kerfið hefur verið óbreytt þrátt fyrir ábendingar um meingallað kerfi. Það hvetur ekki til endurvinnslu innan lands heldur til þess að plastið sé flutt til útlanda með tilheyrandi kolefnisspori. Nýlegar breytingar sem gerðar voru á kerfinu höfðu áhrif á stöðu endurvinnslufyrirtækisins Pure North í Hveragerði sem er, svo það sé tekið fram, með einhverja umhverfisvænstu endurvinnslu á þessu sviði sem þekkist í heiminum. Þær rýrðu samkeppnisstöðu þeirra mjög mikið. Í Evrópusambandinu eru dæmi um það og starfsemin sem slík nýtur ríkisstyrkja,“ sagði Jón og hélt áfram:
„Kerfið hvetur ekki til hreinsunar og böggunar fyrir vigt heldur að það séu vigtuð óhreinindi og vatn. Eins og ég fór yfir í fyrri ræðu minni í gær um þessi mál er stór hluti af því sem verið er að greiða fyrir vatn og drulla. Tölur sem síðan eru birtar um endurvinnslu á plasti eru þar með skakkar, rangar, þær eru blekking. Árangurinn er ekki í neinu samræmi við það þegar verið er að tala um góðan árangur okkar á því sviði. Við höfum líka á undanförnum árum eytt hundruðum milljóna úr Úrvinnslusjóði til að greiða fyrir vatn og óhreinindi. Nýlegar upplýsingar segja mér að heilmikið magn af heyrúlluplasti sé urðað á Íslandi, af því sem ekki er flutt út og sent til Malasíu og því litla magni sem er endurunnið í Hveragerði. Það er ákveðinn tvískinnungur í þessum málum og það er með ólíkindum að stofnunin, Úrvinnslusjóður, hafi ekki brugðist við þessu og að ráðuneyti umhverfismála hafi ekki brugðist við þessu. Það vekur eftirtekt að stofnunin hefur ekki skilað ársreikningi síðan 2016.“
Jón er ákveðinn: „Af því tilefni mun ég leita eftir því að Ríkisendurskoðun geri úttekt á þessari stofnun.“