Alþingi
„Ég taldi réttlætanlegt að ríkissjóður kæmi að mikilvægu verkefni. Það eru góð rök fyrir því að hækka jafnt barnabætur og greiðslur í fæðingarorlofi. (Ég hef hins vegar lengi talað fyrir því að barnabótakerfið verði lagt niður og þess í stað tekinn upp persónuafsláttur barna sem færi lækkandi eftir því sem tekjur foreldra eru hærri). Hækkun vaxta- og húsnæðisbóta orkar tvímælis en virðist mikilvægur þáttur í að kjarasamningar hafi tekist. Sá kostnaður er minni háttar miðað við ávinninginn af langtímasamningum og meiri stöðugleika,“ segir í grein Óla Björns Kárasonar í vikulegri Moggagrein hans.
„Ekki er hins vegar hjá því komist að vara sérstaklega við hugmyndum um fríar skólamáltíðir sem áætlað er að kosti ríkissjóð um 21,5 milljarða út samningstímann. Það er allt rangt við þessa ráðstöfun fjármuna. Verið er að styrkja stóran hóp foreldra sem þarf ekki á stuðningi að halda og færa má rök fyrir því að matarsóun aukist. Ef það var ætlun ríkisstjórnarinnar að verja á þriðja tug milljarða króna til að styðja við barnafjölskyldur hefði verið skynsamlegra að hækka barnabætur enn frekar en ráðgert er. Fríar skólamáltíðir eru dæmi um vonda ráðstöfun sameiginlegra fjármuna,“ segir Óli Björn í greininni.
„Von mín um að ríkisstjórnin gæti sameinast um að lækka skatta, og þá sérstaklega lækka neðsta þrep tekjuskattsins, gekk ekki eftir. Það er miður enda kemur fátt þeim sem lægri launin hafa betur en lækkun tekjuskatts fyrir utan lækkun útsvars,“ segir í síðasta hluta þess sem við birtum hér.