- Advertisement -

Vill spyrja borgarbúa um Elliðarárdalinn

Sanna Magdalena Mörtudóttir skrifar:

Sanna Magdalena:
Hérna er um stórt mál að ræða og eðlilegt að íbúar fái að segja sitt í þessu máli.

Í borgarstjórn erum við að ræða tillögu okkar í minnihlutanum um að efna til íbúakosningu um breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals vegna uppbyggingar við Stekkjarbakka Þ73 en þar er m.a. fyrirhugað að reisa stærðarinnar gróðurhvelfingu. Margir líta skiljanlega á þetta svæði sem hluta af Elliðarárdalnum en borgin hefur skilgreint svæðið utan marka hans.

Hér er um að ræða svæði sem skiptir miklu máli í hugum margra borgarbúa, hér eru um að ræða náttúruperlu sem margir líta á sem hluta af Elliðarárdalnum. Þegar við skoðum myndir af skipulaginu og hvernig gróðurhvelfingin á eftir að koma til með að líta út þá sjáum við það að þetta á eftir að koma til með að hafa áhrif á upplifun fólks af dalnum og af svæðinu. Þarna er verið að tala um að heimila uppbyggingu á atvinnustarfsemi á þessu svæði, því þarna á að reisa stóra gróðurhvelfingu þar sem fyrirhugað er að bjóða upp á vörur og þjónustu. Við höfum heyrt raddir sem mótmæla þessari uppbygginu og ég tel það ekki jákvæða þróun þegar við erum farin að heimila fyrirtækjum að byggja upp atvinnustarfsemi á svæðum sem margir borgarbúar hafa lengi vel litið á sem útivistarsvæði. Hérna er um stórt mál að ræða og eðlilegt að íbúar fái að segja sitt í þessu máli.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Ráðhús Reykjavíkur:
Hart er tekist á milli meirihlutans og minnihlutans.

Í gróðurhvelfingunni er verið að tala um að einblína á náttúruupplifun og fyrirtækið að baki þess byggir hugmyndafræði sína á náttúrukapítalisma líkt og ég sá í greinum sem ég las þegar ég kynnti mér bakgrunn þess nánar. Á vefsíðu ALDIN Biodome stendur m.a. um markmið þess: „Meginmarkmið ALDIN Biodome er að tengja fólk við náttúruna og stuðla að heilbrigðum lífsstíl, allt á sjálfbæran og arðbæran hátt.“

Þarna er verið að tala um að tengja saman fólk við náttúruna. Ég spyr er það ekki það sem Elliðarárdalurinn og svæði hans gerir nú þegar? Og hvort við séum með þessu ekki á einhvern hátt farin að markaðsvæða náttúruna með því að hleypa hugmyndum um náttúrukapítalisma að uppbyggingu við þetta fallega náttúrusvæði? Ég leggst gegn þessari uppbyggingu en mitt atkvæði hefur ekki mikið vægi hér og þar að auki tek ég mikilvægt að færa valdið til fólksins, sérstaklega þegar um svo stóra uppbyggingu er um að ræða. Þarna fáum við þá á hreint hvað það er sem borgarbúar vilja.

Nú höfum við verið að fylgjast með íbúakosningum fyrir hverfið mitt þar sem íbúar hafa verið hvattir til þess að nýta atkvæðarétt sinn en verkefnið Hverfið mitt er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í hverfum borgarinnar.

En hvað um svo stóra framkvæmd sem hér um ræðir? Á það ekki fullt erindi inn á borð borgarbúa? Sérstaklega þegar við erum að tala um sameiginlegt svæði okkar allra og þegar íbúar leita til okkar og skýra frá því að þeim þyki miður að sjá að þessi uppbygging sé að fara að eiga sér stað? Þegar við heyrum talað um mikilvægi íbúalýðræðis viljum við ekki einmitt fá fram vilja íbúa þegar um er að ræða svo stór verkefni á þessu umrædda svæði?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: