Vill setja Aldísi af sem formann SÍS
Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri á Súðavík, skrifar Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra í Hveragerði og formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, netta ádrepu í Mogganum í dag. Tilefnið er fyrirhuguð lögþvingun sameining sveitarfélaga.
„Vegna framkomu þinnar og trúnaðarbrests í garð aðildarfélaga í SÍS myndi ég, hefði ég til þess nokkurt vald, setja þig af sem formann ef þess væri nokkur kostur. Þó ekki væri nema vegna þess að þú sýnir með framkomu þinni hroka í garð okkar, fulltrúa þeirra sveitarfélaga sem ekki passa í rammann þinn. Um er að ræða stóran hluta þeirra aðildarsveitarfélaga sem standa að SÍS,“ skrifar Bragi Þór.
„Sigurður Ingi ráðherra er vel að sér og veit að lagalega stendur frumvarp hans á brauðfótum,“ skrifar Bragi.
Braga þykir Aldís ekki sinna málstað þeirra sveitarfélaga sem lögin beinast gegn:
„Þú gleymir því að þú átt að vera samkvæmt hlutverkinu talsmaður allra sveitarfélaga en ekki bara þeirra sem þú kýst að fylgja að málum. Þú átt ekki hlutverk í þeirri hrapallegu vegferð sem ráðherra málaflokksins velur að fara, þ.e. boða til átaka við yfir 20 sveitarfélög á landinu frá og með 2022 og svo koll af kolli. Þetta veldur bæði sundrungu innan SÍS og það veldur sundrungu í samfélaginu, milli sveitarfélaga og innan þeirra.“
Bragi Þór, sem er löglærður, skrifar: „Samband íslenskra sveitarfélaga er ekki bært að lögum til þess að ákvarða örlög einstakra sveitarfélaga og á að halda sig til hlés um það að ákvarða nokkuð það sem fer gegn hagsmunum þess.“
Hann endar skrif sín svona:
„Og trúðu mér, ég tala ekki bara fyrir eigin skoðun eða Súðavíkurhrepps, en ég bara get ekki staðið hjá og látið sem þetta sé allt í lagi og halda að það lagist ef það er ekki rætt. Biðst velvirðingar á því hvernig þetta er orðað, en það er víst lítið hlustað þegar orðin eru sett í bómull.“