- Advertisement -

Vill opinbera rannsókn á verðlagningu uppsjávarfisks

Vilhjálmur Birgisson:

Vilhjálmur Birgisson:
Þetta þýðir á mannamáli að síld sem veidd er hér við land af íslensku skipi og siglir með aflann til Noregs fær 127% hærra fiskverð heldur en greitt er hér á landi!

„Hefja þarf opinbera rannsókn á verðlagningu á uppsjávarafla. Sjómenn og sjómannaforystan hafa um alllanga hríð haft sterkan og rökstuddan grun um að útgerðarmenn sem hafa veiðar og vinnslu á sömu hendi far ekki eftir ákvæðum kjarasamnings sjómanna þar sem skýrt er kveðið á um að útgerðarmönnum beri ætíð að greiða hæsta gangverð fyrir fiskinn. Í þessari frétt frá Aflafréttum kemur fram að uppsjávarskipið Margrét EA hafi landað norsk-íslenskri síld í Noregi tvívegis nýverið og fram kemur í fréttinni að Margrét EA hafi fengið 82 kr. fyrir kílóið í Noregi, en ef skipið hefði landað á Íslandi þá hefði verðið verið um 36 kr. Þetta þýðir á mannamáli að síld sem veidd er hér við land af íslensku skipi og siglir með aflann til Noregs fær 127% hærra fiskverð heldur en greitt er hér á landi!

Þú gætir haft áhuga á þessum


…eða 23,2 milljónum meira en ef landað væri á Íslandi.

Þetta hefur gríðarleg áhrif á ekki bara kjör sjómanna heldur einnig á samfélagið allt. Enda liggur fyrir að ef útgerðarmönnum sem hafa veiðar og vinnslu á sömu hendi tekst að ákvarða fiskverð til sinna sjómanna sem er 127% lægra hér á landi en í Noregi er verið að hafa gríðarlegar upphæðir af ekki bara sjómönnum eins og áður sagði heldur einnig skatttekjur til ríkis og sveitarfélaga sem og hafnargjöld sem taka mið af heildar aflaverðmæti.

Skoðum muninn ef Margrét EA hefði landað á Íslandi en ekki í Noregi og það bara á þessum tveimur túrum.
Aflaverðmætið hefði verið 99,8 milljónir ef aflanum hefði verið landað á Íslandi þar sem útgerðarmenn ákveða einhliða fiskverðið, en af því að landað var í Noregi þá varð aflaverðmætið 227,4 milljónir.

Aflahluturinn til sjómanna hefði verið 18,1 milljón ef landað hefði verið á Íslandi, en ef því að landað var í Noregi varð aflahlutur sjómanna 41,4 milljónir eða 23,2 milljónum meira en ef landað væri á Íslandi.

Tap ríkis og sveitarfélaga
En hvað tapa ríki og sveitarfélög vegna þess að útgerðarmenn svindla og svína á fiskverði til sjómanna í skjóli þess að veiðar og vinnsla eru á sömu hendi? Bara í Þessum tveimur túrum hjá Margréti EA nemur þetta 10,6 milljónum sem ríki og sveitarfélög fá meira vegna þess að landað var í Noregi en ekki á Íslandi.

Eins og áður sagði þá hefur lengi verið rökstuddur grunur um þetta svindl og ekki sé verið að fara eftir ákvæðum kjarasamnings sjómanna þar sem skýrt er kveðið á um að útgerðarmönnum beri ætíð að greiða hæsta gangverð fyrir fiskinn.


Ég ítreka það enn og aftur að það eru ekki bara skipverjar sem verða fyrir tekjutapi vegna þessa, heldur verða ríkissjóður og sveitarfélög af gríðarlegum skatttekjum.

Þetta á ekkert bara við um verðlagningu á síld heldur einnig makríl og loðnu, en í fréttum í byrjun september á þessu ári þá upplýsti Verðlagsstofa skiptaverðs í skýrslu sem gefin var út um hver verðmunur á aflaverðmæti á makríl væri á milli Noregs og Íslands og kom fram að Norðmenn hafa greitt 226% meira að meðaltali fyrir makrílinn á tímabilinu frá árinu 2012 til 2018, en mesti munur var tæp 300% á árinu 2018.

Þessi samantekt frá Verðlagsstofu var enn ein staðfesting á þessum rökstudda grun sjómanna um að útgerðir í uppsjávarveiðum á Íslandi ástundi gróft svindl og svínarí. Ekki bara á sjómönnum heldur einnig á samfélaginu öllu. Enda má klárlega áætla að á umræddu tímabili hefði verið haft af sjómönnum laun sem nema allt að 10 milljörðum og af ríki og sveitarfélögum skatttekjum sem nema allt að 5 milljörðum!

Ég ítreka það enn og aftur að það eru ekki bara skipverjar sem verða fyrir tekjutapi vegna þessa, heldur verða ríkissjóður og sveitarfélög af gríðarlegum skatttekjum.

Ég skora enn og aftur á stjórnvöld í ljósi alls þessa sem og að Verðlagsstofa skiptaverðs hefur afhjúpað það svindl og svínarí sem viðgengst í verðmyndun á uppsjávarafla að hefja án tafar opinbera rannsókn á verðlagningu á uppsjávarafla á Íslandi.

Eitt er víst að menn hafa hafið opinberar rannsóknir yfir minna tilefni en þetta, enda tekjutap hjá ríkissjóði og sveitarfélögum mælt í milljörðum á umræddu tímabili!“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: